Erlent

Fresta gildistöku umdeildrar ákvörðunar um þungunarrof

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákvörðun um þungunarrof mótmælt í Varsjá.
epa/Radek Pietruszka

Stjórnvöld í Póllandi hafa frestað gildistöku ákvörðunar stjórnlagadómstóls landsins, sem komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að þungunarrof vegna fósturgalla bryti í bága við stjórnarskrá landsins. Hundruð þúsunda hafa mótmælt ákvörðuninni í nær tvær vikur.

Michał Dworczyk, skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins, sagði í samtali við Guardian í dag að leiðtogar stjórnarinnar réðu nú ráðum sínum og freistuðu þess að finna lausn á málinu. „Það eru samræður í gangi og það væri gott að taka smá tíma til að tala saman og finna nýjan flöt á þessari stöðu, sem er erfið og tilfinningaþrungin,“ sagði hann.

Forsætisráðherrann Mateusz Morawiecki hefur sagst vilja ræða við mótmælendur og stjórnarandstæðinga til að finna lausn. Nokkuð liggur á þar sem hin fjölmennu mótmæli ganga þvert gegn fyrirmælum og vilja pólskra sóttvarnayfirvalda, sem hafa bannað fleirum en fimm að koma saman vegna Covid-19.

Lögspekingar segja tafirnar ótækar

Lög um þungunarrof eru ströng í Póllandi en ef ákvörðun stjórnlagadómstólsins verður fylgt eftir verða þungunarrof aðeins heimil í þeim tilvikum þegar líf móðurinnar er í hættu eða þegar þungunin er afleiðing glæps, þ.e. nauðgunar eða sifjaspells.

Forseti Póllands, Andrzej Duda, hefur lagt til að lögunum verði breytt á þann veg að þungunarrof yrðu heimil í þeim tilvikum þegar fósturgallarnir myndu að öllum líkindum leiða til dauða barnsins en yrðu bönnuð þegar um væri að ræða heilkenni á borð við Downs. Hugmyndin er ekki sögð njóta nægs stuðnings í þinginu til að verða að raunveruleika.

Lögspekingar segja pattstöðuna sem upp er komin verstu mögulegu niðurstöðuna í málinu en lög kveða á um að ákvarðanir stjórnlagadómstólsins séu birtar og taki gildi umsvifalaust. Það eigi ekki að vera hægt að fresta áhrifum ákvarðanna dómstólsins eftir geðþótta.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×