Erlent

Íslendingar í Vín segja ástandið hrikalegt

Sylvía Hall og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Íslendingar í borginni segja stöðuna átakanlega.
Íslendingar í borginni segja stöðuna átakanlega. Aðsendar/EPA

Skotárás varð í Vínarborg í kvöld og hafa umfangsmiklar lögregluaðgerðir staðið yfir á að minnsta kosti sex stöðum í borginni. 

Innanríkisráðherra landsins segir að um hryðjuverkaárás sé að ræða. Ekki er ljóst hversu margir eru látnir en lögregla hefur staðfest að minnsta kosti eitt andlát. Þá eru fleiri særðir eftir árásirnar. 

Íslendingur í borginni segir aðgerðir lögreglu greinilegar á svæðinu. Almenningssamgöngum hefur verið lokað og fólk beðið um að halda sig innandyra að mestu.

„Þetta er alveg hrikalegt. Ég er smá skelkuð. Ég heyri alveg í lögreglunni og öllu, þetta er svo nálægt mér,“ segir háskólaneminn Jovana Pavlović í samtali við Vísi. Jovana stundar meistaranám við Háskólann í Vín. 

„En ég veit ekkert mikið meira en það sem kemur fram í fjölmiðlum. Ég ætla bara að halda mig innanhúss og er smá skelkuð. Þetta er rosalega óþægilegt.“

Var á lestarstöðinni fyrr í kvöd

Marta Kristín Friðriksdóttir, sem einnig er búsett í Vín, segist líka hafa orðið vör við sírenulæti.

„Ég og kærasti minn erum örugg heima, við búum sem betur fer ekki alveg í miðbænum. Við heyrum mjög reglulega í sírenum þjóta framhjá. Okkur hefur verið ráðlagt að halda okkur heima og alls ekki vera úti á götu og það er það sem við ætlum að gera,“ segir Marta í skriflegu svari til Vísis.

„Mér finnst líka ótrúlega skrítið að hugsa til þess að ég var sjálf á þessari lestarstöð (Schwedenplatz) fyrr í kvöld en var sem betur fer komin heim þegar árásin hófst. Ég hef búið í Vín í 3 ár og alltaf upplifað mig mjög örugga og vona að borgin jafni sig fljótt á þessari árás,“ bætir hún við.

Lögregla greindi frá því í kvöld að einn árásarmaður hefði verið felldur af lögreglu. Þá væri að minnsta kosti einn látinn og nokkrir slasaðir, þar af einn lögreglumaður.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×