Erlent

„Rektu Fauci, rektu Fauci“ kölluðu stuðningsmenn Trump

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Donald Trump umkringdur stuðningsmönnum sínum á fjöldafundi í Flórída í gærkvöldi.
Donald Trump umkringdur stuðningsmönnum sínum á fjöldafundi í Flórída í gærkvöldi. EPA/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf í skyn á kosningafundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída að hann hygðist reka Anthony Fauci, helsta sóttvarnasérfræðing Bandaríkjastjórnar. Hann muni þó bíða með það að reka hann þar til eftir forsetakosningarnar sem fram fara á morgun.

Trump var í miðri ræðu þar sem hann ræddi um bóluefni og hæddist nokkuð af þjóðfélagsumræðunni um kórónuveirufaraldurinn þegar stuðningsmenn hans hófu að hvetja hann til að reka Fauci.

„Þú kveikir á fréttunum og það eina sem þau tala um er covid, covid, covid. Við viljum tala um covid og síðan næsta mál. 4. nóvember munuð þið ekki heyra svo mikið um það,“ sagði Trump þegar stuðningsmenn byrjaði að hrópa í kór. „Rektu Fauci, rektru Fauci, rektu Fauci,“ heyrðist fjöldinn kalla og forsetinn svaraði.

„Ekki segja neinum en leyfið mér að bíða með það þangað til aðeins eftir kosningarnar. Ég kann að meta þetta ráð. Hann hefur haft rangt fyrir sér. Hann er góður maður en hann hefur haft rangt fyrir sér,“ sagði Trump.

Anthony Fauci hefur gegnt embætti forstöðumanns ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna í yfir þrjátíu ár. Hann hefur verið gagnrýninn á það hvernig Trump hefur tekið á kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×