Innlent

Lögðu út naglamottur og beittu úðavopni til að ná manni sem var talinn ógnandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum á vettvangi í gærkvöldi.
Frá aðgerðum á vettvangi í gærkvöldi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að beita ýmsum ráðum til að stöðva för ökumanns í Mosfellsbæ á tíunda tímanum í gærkvöldi. Lögreglunni hafði borist tilkynning um mann sem hafði gargað úr bíl á unglinga sem voru á göngustíg við Vesturlandsveg.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að unglingunum fannst stafa ógn af manninum.

Myndband af aðgerðum á vettvangi má sjá hér fyrir neðan:

Þegar lögregla kom á vettvang sat maðurinn í bíl sínum sem var kyrrstæður við Vesturlandsveg. Þegar lögreglumenn reyndu gengu að bílnum ákvað maðurinn að bruna af stað.

Hófst þá mikil eftirför lögreglu í Mosfellsbæ sem var með mikinn viðbúnað til að reyna að stöðva för mannsins. Brá lögreglan meðal annars á það ráð að setja út naglamottur á nokkra staði en maðurinn ók ekki inn á þá staði.

Eftir að maðurinn hafði ekið á móti umferð á hringtorgi á Vesturlandsvegi ákvað lögreglan að setja upp svokallaða „fasta fyrirstöðu“, eins og Ásgeir kallar það. Maðurinn reyndi að aka fram hjá fyrirstöðunni með því að fara upp á gangstétt. Var þá ákveðið að keyra bíl mannsins út, sem þýðir að lögreglubíl var ekið utan í bíl mannsins og för hans stöðvuð þannig til móts við N1 á Vesturlandsvegi. 

Þegar búið var að tryggja að bíllinn kæmist ekki lengra neitaði maðurinn að yfirgefa bílinn. Lögreglan þurfti að brjóta sér leið inn í bílinn og yfirbuga manninn með úðavopni.

Sérsveit ríkislögreglustjóra kom á vettvang en þá var búið að handtaka manninn.

Ásgeir segir manninn grunaðan um fjölda brota, þar á meðal brot á umferðarlögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×