Íslenski boltinn

Formaðurinn vill ekki tjá sig um fögnuð Leiknismanna

Kolbeinn Tumi Daðason og Ísak Hallmundarson skrifa
Ekki virðist hafa verið gætt að tveggja metra reglu og grímuskyldu í búningsklefa Leiknis í gær.
Ekki virðist hafa verið gætt að tveggja metra reglu og grímuskyldu í búningsklefa Leiknis í gær. vísir/skjáskot

Leiknir Reykjavík er komið upp í Pepsi Max deildina 2021 eftir að KSÍ tók ákvörðun um að blása Íslandsmótið í knattspyrnu af í gær, þar sem Leiknir var í öðru sæti þegar einungis tvær umferðir voru eftir af mótinu. 

Leiknismenn voru á æfingu síðdegis í gær um það leyti sem KSÍ greindi frá ákvörðun sinni í kjölfar hertra aðgerða á landinu vegna kórónuveirunnar, sem tóku gildi á miðnætti. 

Eftir æfingu brutust út mikil fagnaðarlæti þegar leikmenn fengu fréttirnar að þeir væru komnir í efstu deild.

Kristján Óli Sigurðsson, einn þáttastjórnenda í hlaðvarpsþættinum Dr. Football, birtir mynd á Twitter úr búningsklefanum og bendir á að þar hafi tveggja metra regla ekki verið virt. 

Fyrr í dag kom fram í frétt á Vísi að leikmenn og starfsmenn meistaraflokks Vals í knattspyrnu hafi fagnað Íslandsmeistaratitli sínum í Fjósinu, félagsheimili félagsins, í gærkvöldi. Svo virðist sem reglur um samkomubann hafi gleymst í fögnuði Valsmanna þar sem staðið var á stólum og sungið. Formaður Vals vissi ekki af hittingnum og sagði hann ekki í anda félagsins.

Fögnuður Leiknismanna í klefanum var þó ekki skipulagður fögnuður heldur var myndin eins og áður segir tekin í búningsklefa eftir æfingu, en á myndinni má telja 21 leikmann. Þá eru engar grímur á andlitum leikmanna.

Íþróttadeild barst myndband úr félagsheimili Leiknismanna í gær þar sem kampavíni eða freyðivíni er sprautað af svölum í heimilinu. 

Íþróttadeild náði tali af Oscari Clausen, formanni Leiknis, en hann vildi ekki tjá sig um fögnuð Breiðhyltinga. 


Tengdar fréttir

Umdeildur fögnuður Valsmanna ekki með blessun formanns

Leikmenn og starfsmenn meistaraflokks Vals í knattspyrnu fögnuðu Íslandsmeistaratitli sínum í Fjósinu, félagsheimili félagsins, í gærkvöldi. Svo virðist sem reglur um samkomubann hafi gleymst í fögnuði Valsmanna þar sem staðið var á stólum og sungið. Formaður Vals vissi ekki af hittingnum og segir hann ekki í anda félagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.