Innlent

Búist við snjókomu og hríðarveðri á fjallvegum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
„Eins og svo oft á þessum árstíma fellur úrkoma til fjalla gjarnan sem snjór,“ skrifar veðurfræðingur.
„Eins og svo oft á þessum árstíma fellur úrkoma til fjalla gjarnan sem snjór,“ skrifar veðurfræðingur. Vísir/Vilhelm

Búast má við hríðarveðri á fjallvegum austan til á landinu frá því um miðnætti í kvöld og til hádegis á morgun. Hríðin kemur til vegna lægðar sem nú fer norður með Austurlandi að því er segir í ábendingu frá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Einkum má búast við hríðarveðri á Fagradal og á Fjarðarheiði þar sem einnig er viðbúið að verði nokkuð blint sökum skafrennings, og einnig á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni segir að næstu tvo daga verði allnokkrar lægðir á sveimi í kringum landið. Einna mest verði úrkoman á austanverðu landinu framan af en færist síðan norður á morgun þegar tekur að kólna. Þeir sem hugi á ferðalög ættu að vera búnir til vetrarakstur enda úrkoma á þessum ártíma gjarnan í formi snjókomu.

„Fyrir norðan á morgun færist hins vegar snjólínan talsvert neðar og gæti snjóað niður á laglendi um kvöldið. Hins vegar verður lengst af þurrt syðra á morgun en í dag má búast við minnkandi skúrum,“ segir ennfremur í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Minnkandi sunnanátt og skúrir í dag, en bjartviðri N-lands. Hiti 2 til 7 stig. Snýst í norðanátt og fer að rigna á A-landi í kvöld. Norðan og norðvestan 8-15 á morgun, en 15-20 á Austfjörðum fram eftir morgni. Rigning eða slydda um landið N-vert og seinna snjókoma á köflum, en lengst af þurrt sunnan jökla. Hiti 0 til 8 stig, mildast SA-lands.

Á mánudag:

Vestan 5-13 m/s, en 13-18 við NA-ströndina. Él N-lands og slydda eða snjókoma um kvöldið, annars stöku skúrir eða él, en þurrt SA-til á landinu. Hiti um og yfir frostmarki.

Á þriðjudag:

Hvöss norðvestanátt, en mun hægari V-lands. Él á N- og NA-landi fram eftir degi, en bjartviðri S- og V-til. Fer að lægja seinni partinn. Hiti 0 til 6 stig, en í kringum frostmark fyrir norðan.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Hvöss suðvestanátt, rigning og milt veður, en úrkomulítið á NA- og A-landi.

Á föstudag:

Suðvestanátt og skúrir eða él, en þurrt og bjart veður A-lands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×