Erlent

Fjögur þúsund leita í rústum í Izmir

Samúel Karl Ólason skrifar
Nærri því fjögur þúsund björgunarmenn leita í rústum í Izmir.
Nærri því fjögur þúsund björgunarmenn leita í rústum í Izmir. AP Photo/Ismail Gokmen

Minnst 27 eru látnir eftir sterkan jarðskjálfta í Eyjahafinu í gær. Skjálftinn var af stærðinni 7 samkvæmt mælingum og olli miklu tjóni í tyrknesku borginni Izmir.

Björgunarmenn vinna nú hörðum höndum að því að bjarga fólki úr rústum húsa sem hrundu í Tyrklandi. Embættismenn í Izmir á vesturströnd Tyrklands segja að minnst 25 hafi dáið á svæðinu og hrundu minnst tuttugu byggingar.

Blaðamenn Reuters sem eru á svæðinu segja að meðal þeirra sem sitja fastir í rústum húsa í Izmir sé móðir og fjögur börn hennar. 

Fjölmargir eftirskjálftar hafa orðið og hafa þeir komið niður á björgunarstarfi. Ráðamenn segja þó að búið sé að bjarga um hundrað manns úr rústum bygginga. Minnst 800 eru sagðir hafa slasast í jarðskjálftanum í Tyrklandi.

Nærri því fjögur þúsund manns vinna að björgunarstörfum og er notast við gröfur og jarðýtur, auk þess sem hundar eru notaðir til að leita að fólki í rústunum.

Þá dóu tveir táningar á grísku eyjunni Samos þegar veggur féll á þau.

Upptök jarðskjálftans voru skammt undan ströndum Tyrklands og á um 21 kílómetra dýpi, samkvæmt jarðvísindastofnun bandaríkjanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.