Fótbolti

Rúnar Alex sá fjórði sem spilar fyrir Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Alex er í marki Arsenal í kvöld.
Rúnar Alex er í marki Arsenal í kvöld. Arsenal FC

Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er í byrjunarliði Arsenal sem mætir Dundalk í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld. Er þetta hans fyrsti leikur fyrir félagið síðan hann gekk til liðs við það frá franska félaginu Dijon í sumar.

Hinn 25 ára gamli Rúnar Alex er 875. leikmaðurinn sem fær tækifæri með aðalliði Arsenal. Þá er hann fjórði Íslendingurinn en þeir Sigurður Jónsson, Albert Guðmundsson og Ólafur Ingi Skúlason hafa einnig leikið með liðinu.

Sigurður Jónsson lék með Skyttunum frá 1989 til 1991. Ef ekki hefði verið fyrir mikil meiðsli Sigurðar hefði hann eflaust leikið fleiri leiki og mun lengur með félaginu. Albert Guðmundsson lék með Arsenal tvívegis árið 1946 en vegna vandamála með atvinnuleyfi urðu leikirnir ekki fleiri.

Ólafur Ingi lék svo einn leik með liðinu árið 2003 en svo ekki söguna meir. Það gæti því farið svo að Rúnar slái þeim öllum við gangi honum vel í leik kvöldsins og komandi leikjum.

Þá hafa þrír Íslendingar verið á mála hjá Arsenal án þess að leika fyrir liðið. Það eru Ríkharður Jónsson og bræðurnir Valur Fannar Gíslason og Stefán Gíslason.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.