Fótbolti

Nagels­mann: Ég er knatt­­spyrnu­­þjálfari, ekki fyrir­sæta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nagelsmann er ekki mikið fyrir að vera í þjálfaraúlpunni á hliðarlínunni.
Nagelsmann er ekki mikið fyrir að vera í þjálfaraúlpunni á hliðarlínunni. Vincent Mignott/Getty Images

Topplið þýsku úrvalsdeildarinnar, RB Leipzig, heimsótti Old Trafford í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Leipzig mætti þar Manchester United sem hefur átt erfitt uppdráttar á heimavelli til þessa á leiktíðinni en það var ekki raunin í gær.

Lærisveinar Ole Gunnar Solskjær voru með tögl og haldir nær allan leikinn en það var varamaðurinn Marcus Rashford sem sökkti Þjóðverjunum með þremur mörkum á aðeins sextán mínútum. Þrátt fyrir 5-0 sigur Man United þá var klæðaburður Julian Nagelsmann – þjálfara Leipzig – til umræðu að leik loknum.

Hinn 33 ára gamli Nagelsmann er talinn nokkurskonar undrabarn í þjálfun enda á þeim aldri að hann ætti frekar að vera spila heldur en að þjálfa. Nagelsmann hefur oftar en ekki vakið athygli fyrir „áhugaverðan“ klæðaburð á hliðarlínunni og gerði það svo sannarlega í gær. Honum til mikils ama.

„Ekki tala svona mikið um klæðaburð minn, ég klæðist því sem mér sýnist. Ég er knattspyrnuþjálfari, ekki fyrirsæta,“ sagði Nagelsmann í viðtali eftir leik er gefið var til kynna að engin heppni fylgdi jakkanum sem hann klæddist á Old Trafford.

Klæðaburður Nagelsmann hefur ekki mikil áhrif á getu hans á hliðarlínunni enda er hann eins og áður sagði mikilsmetinn þjálfari í Evrópuboltanum. 

Fór Leipzig í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð undir hans stjórn og tróna sem stendur á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar. Hér að neðan má til að mynda sjá klæðaburð Nagelsmann í undanúrslitaleiknum gegn Paris Saint-Germain á síðustu leiktíð.

Nagelsmann á hliðarlínunni í leiknum gegn PSG á síðustu leiktíð.EPA-EFE/David Ramos

Það verður því gaman að sjá hverju Nagelsmann klæðist er liðin mætast í síðari leik sínum í H-riðli Meistaradeildarinnar þann 8. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×