Innlent

Alltaf hópar sem vilja ekki eiga í samskiptum við yfirvöld

Kolbeinn Tumi Daðason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Víðir Reynisson segir erfitt fyrir lögreglu þegar smit komast í jaðarhópa sem vilja ekkert af yfirvöldum vita.
Víðir Reynisson segir erfitt fyrir lögreglu þegar smit komast í jaðarhópa sem vilja ekkert af yfirvöldum vita. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir fólk almennt virða reglur um einangrun og sóttkví hér á landi. En auðviðað séu þó dæmi þess að slíkt sé ekki virt.

Fram kom í fréttum í gær að góðkunningi lögreglunnar á Akureyri gerði yfirvöldum erfitt fyrir norðan heiða. Hann kom í leitirnar í gær. Þá þurfti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að hafa afskipti af karlmanni í Mosfellsbæ í morgun sem virti ekki reglur um einangrun. Hann er smitaður af Covid-19.

„Við höfum verið að lenda í þessu með einstaklinga, góðkunningja lögreglunnar, bæði hér og fyrir norðan sem hefur verið dálítið mikil vinna fyrir lögregluna að eiga í samskiptum við,“ segir Víðir.

Svona mál séu unnin sem heilbrigðisverkefni og yfirvöld njóti stuðnings frá Frú Ragnheiði á höfuðborgarsvæðinu og Ungfrú Ragnheiði á Akureyri. Aðalatriði sé að tryggja öryggi hinna veiku.

„Það eru auðvitað hópar sem vilja ekki eiga í samskiptum við yfirvöld, sama hvort það eru heilbrigðisyfirvöld eða lögregla. Þegar við erum komin með smit í svoleiðis hópa verður málið miklu snúnara.“

Víðir segir að smit í svona hópum skipti tugum. Að mestu á höfuðborgarsvæðinu en líka fyrir norðan.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um að þetta fólk fái þá þjónustu sem þarf. Við þurfum að huga að þeirra öryggi.“

Nokkuð hefur verið um handtökur vegna þessa en þau tilfelli séu ekki mörg. Þá sé um að ræða Íslendinga í slíkum jaðarhópum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.