Erlent

Fyrstu skráðu smitin á eyjunum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá eyjunni Majuro á Marshall-eyjum. Íbúar eyjanna telja um 55 þúsund.
Frá eyjunni Majuro á Marshall-eyjum. Íbúar eyjanna telja um 55 þúsund. Getty

Fyrstu skráðu kórónuveirusmitin hafa komið upp á Marshall-eyjum í Kyrrahafi, en eyjarnar hafa verið einn af síðustu stöðum heims þar sem ekkert hefur spurst til Covid-19.

Heilbrigðisyfirvöld þar í landi segja að tveir einstaklingar hafi nú greinst með veiruna. Var um að ræða tvo verkamenn sem starfa á bandarískri herstöð á eyjunni Kwajalein, en þeir komu til Marshall-eyja frá Hawaii á þriðjudag.

Hinir smituðu komu til landsins um borð í herflugvél og hafa verið í einangrun frá komunni. Segja talsmenn heilbrigðisyfirvalda að um landamærasmit væri að ræða og að almenningi á Marshalleyjum stafi ekki hætta af smitunum. Er um 35 ára konu og 46 ára karlmann að ræða.

Stjórnvöld á Marshall-eyjum tóku ákvörðun um að loka landamærunum í mars síðastliðinn til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Íbúar Marshall-eyja eru um 55 þúsund talsins.

Flest eyríkin í Kyrrahafi lokuðu landamærum sínum skömmu eftir að faraldurinn hófst af ótta við að heilbrigðiskerfi landanna myndu ekki ná að takast á við fjölda tilfella. Talið er að enn hafi ekki komið upp nein kórónuveirusmit á Kíríbatí, Míkrónesíu, Nárú, Samóa, Tonga, Túvalú og Vanúatú.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.