Erlent

Biden, Trump og 73 milljónir Bandaríkjamanna búnir að kjósa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump og Joe Biden.
Donald Trump og Joe Biden. AP/Patrick Semansky

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er búinn að kjósa í forsetakosningunum sem haldnar verða í Bandaríkjunum eftir tæpa viku. Gríðarlegur fjöldi samlanda hans er þegar búinn að kjósa, þar á meðal mótframbjóðandi hans og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sem kaus á laugardaginn.

„Jæja, ég var að kjósa,“ sagði Biden er hann ræddi við fjölmiðlamenn í heimabæ hans Wilmington í Delaware í Bandaríkjunum. Biden nýtti athyglina til þess að ræða um áætlanir sínar í heilbrigðismálum verði hann kjörinn forseti.

Trump greiddi atkvæði í Flórída á laugardaginn þar sem hann sagðist hafa „kosið mann að nafni Trump.“

Samkvæmt samantekt Washington Post hafa alls 73,3 milljónir Bandaríkjamanna þegar kosið í kosningunum. Athygli vekur að sú tala er um helmingur heildaratkvæða sem greidd voru í síðustu forsetakosningum þegar 139 milljónir Bandaríkjamanna nýttu kosningarétt sinn. Þá kusu um fimmtíu milljónir Bandaríkjamanna áður en kjördagur rann upp.

Þessi mikli fjöldi utankjörfundaratkvæða getur bent til þess að kjörsókn í komandi kosningum verði sú mesta í meira en heila öld. Þá er fjöldinn einnig talinn til marks um mikinn áhuga á baráttu þeirra Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, og Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, um embættið en líka að kjósendur vilji forðast að verða útsettir fyrir kórónuveirusmiti á kjörstað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.