Fótbolti

Klopp: Þetta var það síðasta sem við þurftum á að halda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabinho situr í grasinu eftir að hann tognaði aftan í læri í leiknum á móti Midtjylland í Meistaradeildinni í gær.
Fabinho situr í grasinu eftir að hann tognaði aftan í læri í leiknum á móti Midtjylland í Meistaradeildinni í gær. EPA-EFE/Michael Regan

Liverpool vann 2-0 sigur á Midtjylland í Meistaradeildinni í gærkvöldi en stærsta frétt kvöldsins á Anfield voru þó meiðsli Brasilíumannsins Fabinho.

Liverpool hefur verið í vandræðum með miðvarðarstöðuna enda eru bæði Virgil van Dijk og Joel Matip á meiðslalistanum. Virgil van Dijk sleit krossband og verður ekki meira með á leiktíðinni en meiðsli Matip eru ekki nærri því eins slæm.

Í miðvarðarhallæri Liverpool að undanförnu þá nýtti Jürgen Klopp sér fjölhæfni Fabinho og færði hann af miðjunni og niður í vörnina með góðum árangri. Það var því áfall þegar Fabinho settist í grasið eftir hálftíma leik í gær.

„Hann fann tak aftan í læri og það er ekki gott. Hann sagðist hafa getað spilað áfram en gat ekki tekið neina spretti sem hjálpar ekki. Við þurfum að sjá til og við munum vita meira eftir myndatöku,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool eftir leikinn.

„Við höfum verið að vinna vel út úr stöðunni en þetta var áfall fyrir liðið því nú þurfum við að bregðast við þessu. Þetta var það síðasta sem við þurftum á að halda,“ sagði Klopp.

Hinn nítján ára gamli Rhys Williams kom inn á fyrir Fabinho og kláraði leikinn við hlið Joe Gomez í miðri vörninni. Liverpool hélt hreinu en slapp nokkrum sinnum með skrekkinn.

„Við erum með unga og óreynda kosti í stöðunni og eins og er þá lítur út fyrir að við þurfum að velja einn þeirra. Rhys stóð sig samt mjög vel í kvöld,“ sagði Klopp.

Jürgen Klopp gat heldur ekki sagt til um það hvort Joel Matip yrði klár í næsta leik. „Ég veit það ekki. Við verðum að bíða og sjá til,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×