Erlent

Gætu tekið af rafmagn hjá milljón manna til að draga úr eldhættu

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmaður Pacific Gas & Electric fylgist með Creek-gróðureldinum í Kaliforníu í september. Slíkir eldar kvikna oft þegar rafmagnsstaurar brotna eða línur slitna þegar þurrt og hvasst er í veðri.
Starfsmaður Pacific Gas & Electric fylgist með Creek-gróðureldinum í Kaliforníu í september. Slíkir eldar kvikna oft þegar rafmagnsstaurar brotna eða línur slitna þegar þurrt og hvasst er í veðri. AP/Marcio Jose Sanchez

Orkufyrirtæki í Kaliforníu gæti tekið rafmagn af hjá allt að milljón viðskiptavinum sínum um helgina til að draga úr hættu á frekari gróðureldum. Spáð er sérstaklega eldfimum aðstæðum, þurrki og hvassviðri víða í Kaliforníu fram í næstu viku.

Gróðureldar í Kaliforníu í ár eru þegar þeir verstu sem sögur fara af. Sambland af miklum hita, þurrki og sterkum vindum sköpuðu aðstæður þar sem eldar gátu kviknað og breitt úr sér með ógnarhraða. Oft hafa slíkir eldar kviknað út frá slitnum rafmagnslínum.

Tekist hefur að ná tökum á öllum stærstu eldunum sem kviknuðu í lok sumars og byrjun hausts. Engu að síður glíma þúsundir slökkviliðsmanna enn við nítján elda.

Veðuraðstæður nú eru sagðar þær eldfimustu á gróðureldatímabilinu til þessa. Því varar Pacific Gas & Electric, helsta orkufyrirtæki Kaliforníu, við því að það gæti tekið rafmagn af hátt í hálfri milljón heimila í 38 sýslum, þar á meðal stærstum hluta San Francisco-flóans. Byrjað yrði að taka rafmagnið af í fyrramálið og gæti rafmagnsleysið varað fram á þriðjudag, að sögn AP-fréttastofunnar.

Varúðarástandi vegna eldhættu hefur verið lýst yfir víða. Spáð er vindstyrk um 15 metrum á sekúndu eða meira í San Francisco og enn meiri í fjöllum.

„Á skalanum einn til tíu er þessi atburður upp á níu. Sögulega eru stærstu eldarnir okkar í október. Við erum á hættulegu tímabili,“ segir Craig Clements, forstöðumaður gróðureldarannsókna hjá San José-ríkisháskólanum. AP segir að átta af tíu mannskæðustu eldum í sögu Kaliforníu hafi orðið í október eða nóvember.

Aðstæður sunnar í Kaliforníu eru sagðar skaplegri. Þar hefur kólnað í veðri og gengur á með örlítilli úrkomu.

Loftslagsbreytingar eru sagðar eiga þátt í að auka gróðureldahættu í Kaliforníu og víðar. Þurrara og hlýrra loftslag hefur valdið því að tré og annar gróður er eldfimara en ella.


Tengdar fréttir

Fingraför manna alls staðar á gróðureldunum vestanhafs

Loftslagsbreytingar af völdum manna sköpuðu aðstæðurnar sem hafa gert gróðureldana miklu í vestanverðum Bandaríkjunum enn verri en ella. Fleiri mannanna verk hafa þó stuðlað að alvarleika eldanna, þar á meðal umhirða skóga og skipulag byggðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.