Fótbolti

Sjáðu hvernig Fabinho bjargaði Liverpool á marklínunni í Amsterdam í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabinho kemur hér í veg fyrir að Dusan Tadic jafni metin fyrir Ajax á móti Liverpool í gær.
Fabinho kemur hér í veg fyrir að Dusan Tadic jafni metin fyrir Ajax á móti Liverpool í gær. AP/Peter Dejong

Liverpool fór með öll þrjú stigin heim frá Amsterdam í gær eftir 1-0 sigur á heimamönnum í Ajax í fyrsta leik liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það hafði getað farið öðruvísi ef Fabinho hefði ekki notið við.

Það þurfti bæði leiklestur og líkamlega hæfileika til að koma í veg fyrir að Ajax liðið jafnaði metin rétt fyrir hálfleik. Fabinho hefur nóg af báðu eins og hann sýndi í magnaðri björgun sinni á marklínu í leiknum í gærkvöldi.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, færði Fabinho af miðjunni og niður í miðvörðinn til að leysa af Virgil van Dijk. Virgil van Dijk sleit krossband í jafnteflinu á móti Everton um síðustu helgi og Joel Matip var einnig óleikfær vagna meiðsla sem hann hlaut í þeim sama leik.

Getty/Alex Gottschalk

Fabinho spilaði vel í nýrri stöðu sem hann hefur leyst áður. Það var þó á 44. mínútu sem hann hafði mest áhrif á leikinn.

Fabinho las þá leikinn mjög vel þegar Dusan Tadic, sóknarmaður Ajax, slapp í gegn. Dusan Tadic lyfti boltanum yfir Adrian markvörð og knötturinn var á leiðinni í markið.

Fabinho hljóp hins vegar í átt að markinu og tókst að sparka boltanum frá marki áður en hann fór yfir marklínuna.

Dómarinn leit á klukkuna sína en marklínutæknin sagði að boltinn hefði ekki farið inn. Endursýningarnar í sjónvarpinu sýndu líka að Fabinho náði boltanum áður en hann fór inn í markið.

Það má sjá þessa geggjuðu björgun hér fyrir neðan.

Klippa: Fabinho bjargar Liverpool á marklínunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×