Innlent

Handtekinn grunaður um þjófnað og brot á sóttkví

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan þurfti tvívegis í gærkvöldi að hafa afskipti af fólki fyrir brot á sóttvarnarlögum.
Lögreglan þurfti tvívegis í gærkvöldi að hafa afskipti af fólki fyrir brot á sóttvarnarlögum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti tvívegis í gærkvöldi að hafa afskipti af fólki fyrir brot á sóttvarnarlögum. Um klukkan hálfellefu var tilkynnt um þjófnað úr verslun við Álfheima.

Þjófurinn hafði stolið þaðan matvöru og komst hann undan á reiðhjóli. Hann var handtekinn skömmu síðar og gaf þá lögreglu ítrekað upp ranga kennitölu.

Síðan kom í ljós að hann var að brjóta sóttvarnarlög auk hegningarlaga því hann átti að vera í sóttkví. Í staðinn gisti hann fangageymslu lögreglu.

Fyrr um daginn höfðu lögreglumenn í Kópavogi haft afskipti af pari í annarlegu ástandi. Konan er grunuð um brot á sóttvarnarskyldu og var hún færð í sýnatöku og síðan á dvalarstað sinn.

Þá þurfti að kalla til sjúkrabíl að verslun í hverfi 105 eftir að starfsmaður verslunarinnar hafði staðið mann að hnupli úr búðinni.

Átök urðu á milli mannanna sem lauk með því að þjófurinn hlaut minniháttar áverka. Ástand mannsins var hins vegar ekki gott að öðru leyti, sökum áfengis- og fíkniefnaneyslu að því er segir í skeyti lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×