Erlent

Fjörutíu milljónir hafa nú smitast af veirunni

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Tilfellum hefur fjölgað mjög á norðurhveli jarðar eftir því sem haustið færist yfir. 
Tilfellum hefur fjölgað mjög á norðurhveli jarðar eftir því sem haustið færist yfir.  Adriana Adie/Getty Images

Fjöldi kórónuveirutilfella á heimsvísu fór í morgun í fjörutíu milljónir, samkvæmt talningu Reuters fréttaveitunnar sem byggir á opinberum tölum hvers lands fyrir sig. Sérfræðingar telja þó víst að tala smitaðra og látinna sé í raun mun hærri. Uppsveifla kom í faraldurinn á norðurhveli jarðar þegar fór að hausta og ljóst er að veiran er enn í sókn. Þannig tók það aðeins 32 daga fyrir fjölda smita að fara úr 30 milljónum í 40 milljónir, á meðan það tók 38 daga að fara úr 20 milljónum í 30, 44 daga að fara úr tíu í 20, og heila þrjá mánuði að ná tíu milljónum smita.

Mörg ríki eru nú að sjá metfjölda í staðfestum smitum en þess ber að geta að skimun er orðin mun víðtækari í fjölda landa. Í síðustu viku fjölgaði smitum á einum sólarhring á heimsvísu um 400 þúsund sem er mesta aukning á einni viku frá upphafi faraldursins. Meðalfjöldi staðfestra smita í síðustu viku var 347 þúsund staðfest smit á sólarhring en þau voru 292 þúsund í fyrstu viku októbermánaðar.

Bandaríkin, Indland og Brasilía eru enn þau ríki sem verst hafa orðið úti í faraldrinum og ef litið er á heimsálfurnar má sjá að um 47 prósent allra tilfella í heiminum hafa verið staðfest í Norður- Mið- og Suður Ameríku. Þá fjölgar smitum hratt í Evrópu, eða um 150 þúsund á hverjum degi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×