Innlent

Fékk bætur og af­sökunar­beiðni frá dóms­mála­ráð­herra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Páll Sverrisson stefndi Læknafélagi Íslands eftir að upplýsingar úr sjúkraskrá hans birtust í blaðinu.
Páll Sverrisson stefndi Læknafélagi Íslands eftir að upplýsingar úr sjúkraskrá hans birtust í blaðinu.

Páll Sverrisson hefur fengið milljónir króna í bætur vegna ítrekaðra birtinga á viðkvæmum persónuupplýsingum um hann af hálfu dómstóla. Þar að auki hefur hann fengið skriflega afsökunarbeiðni frá dómsmálaráðherra vegna málsins.

Páll staðfesti þetta í samtali við RÚV og sagði hann ríkislögmann, sem árið 2018 komst að þeirri niðurstöðu að þrír dómstólar væru bótaskyldir vegna birtinga persónuupplýsinga, hafi boðið honum 200 þúsund krónur í bætur. Ef því yrði ekki tekið gæti hann leitað til dómstóla.

Vissi ekki um upplýsingarnar sjálfur

Haustið 2011 birtist umfjöllun í Læknablaðinu sem sneri að deilu tveggja lækna um alvarlega áverka sem Páll hlaut við byltu. Í blaðinu birtist úrskurður siðanefndar Læknafélags Íslands, þar sem annar læknirinn hafði kært hinn. Í blaðinu birtust viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrám Páls, upplýsingar sem hann vissi ekki einu sinni um sjálfur.

Málið fór fyrir Persónuvernd sem komst að þeirri niðurstöð að óheimilt hafi verið að birta upplýsingarnar úr sjúkraskrám Páls. Páll höfðaði síðar skaðabótamál á hendur Læknafélagi Íslands og ritstjóra Læknablaðsins. Fór svo að Páll fékk skaðabætur frá blaðinu og Læknafélaginu.

Málið Páls var tekið fyrir af Héraðsdómi Reykjaness árið 2013 og Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2016 en í júní 2016 úrskurðaði Persónuvernd að vinnsla dómstólanna á persónuupplýsingum Páls hafi ekki verið í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hæstiréttur fjallaði einnig um mál Páls og var, eftir að dómar féllu hjá dómstólunum, nafn hans birt á vefsíðu dómstóla auk þess sem upplýsingar um heilsufar hans var þar að finna.

Hefði farið með málið fyrir mannréttindadómstól Evrópu

Páll segir í samtali við RÚV að bæturnar sem hann hafi fengið hafi verið töluvert lægri en þær sem hann fór fram á. Bæturnar dugi ekki fyrir kostnaði hans við málið.

Vegna ástandsins í samfélaginu hafi hann ákveðið að samþykkja sættir, en ef ekki hefði verið fyrir faraldurinn hefði hann leitað til mannréttindadómstóls Evrópu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×