Innlent

Birting dómstóla á viðkvæmum upplýsingum ekki í samræmi við lög um persónuvernd

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjaness og Héraðsdómur Reykjavíkur brutu persónuverndarlög þegar þeir birtu viðkvæmar upplýsingar um Pál Sverrisson opinberlega.
Héraðsdómur Reykjaness og Héraðsdómur Reykjavíkur brutu persónuverndarlög þegar þeir birtu viðkvæmar upplýsingar um Pál Sverrisson opinberlega. vísir/gva
Persónuvernd hefur úrskurðað að vinnsla Héraðsdóms Reykjaness árið 2013 og vinnsla Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2016 á persónuupplýsingum er vörðuðu Pál Sverrisson hafi ekki verið í samræmi í lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem kveðinn var upp í dag sem mun þó ekki kæra málið til lögreglu þar sem báðir dómarnir hafa verið teknir úr birtingu. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur er þó aðgengilegur á vef Hæstaréttar en þar hefur nafn Páls verið afmáð sem og tilvísun í dóm Héraðsdóms Reykjaness.

Í apríl síðastliðnum dæmdi Hæstiréttur íslenska ríkið til að greiða Páli 200 þúsund krónur vegna þess að upplýsingar úr sjúkraskrá hans voru birtar opinberlega en Páll hafði farið fram á 35 milljónir króna í bætur.

Vissi ekki af málinu fyrr en tæpum fjórum árum síðar

Málið má rekja til þess að haustið 2011 birtust viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrám Páls í Læknablaðinu. Hann höfðaði skaðabótamál vegna þessa sem dæmt var í í Héraðsdómi Reykjaness árið 2013 og voru dæmdar miskabætur en dómurinn var síðan birtur á vef dómstólana, domstolar.is, eð nafni Páls, aldri hans, bæjarfélagi sem og upplýsingum úr sjúkraskrám.

Páll vissi ekki af þessu fyrr en árið 2016 og beindi þá lögmaður hans því til réttarins að dómurinn yrði fjarlægður og ekki birtur aftur nema viðkvæmar og persónugreinanlegar upplýsingar yrðu máðar burt. Dómurinn varð við því og fjarlægði dóminn.

Síðari dómurinn, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2016, sneri einnig að miskabótakröfu Páls þar sem læknir hafði sent siðanefnd Læknafélags Íslands upplýsingar úr sjúkraskrá. Sá dómur var einnig birtur með nafni Páls og upplýsingum um heilsuhagi hans auk þess sem vísað var í dóm Héraðsdóms Reykjaness frá árinu 2013.

Viðurkenndu mistök við birtingu dómsins

Í úrskurði Persónuverndar eru bréfaskipti við Héraðsdóm Reykjavíkur rakin en í bréfi dómsins til Persónuverndar er fallist á að mistök hafi verið gerð við birtingu dómsins. Er beðist á velvirðingar á því og upplýst að dómurinn hafi verið fjarlægður af vefsíðu dómstólsins.

Eins og fyrr segir úrskurðaði Persónuvernd að vinnsla upplýsinganna um Pál hafi ekki verið í samræmi við lög en fellst ekki á það með Páli að tilefni sé til þess að kæra málið til lögreglu.

„Hvað varðar ábendingar kvartanda um að fleiri dæmi séu um birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu í andstöðu við lög er til þess að líta að kvörtun þessi tekur einungis til birtingar tveggja nánar tilgreindra héraðsdóma. Báðir dómarnir hafa verið teknir úr birtingu, en dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016 var þó áfrýjað til Hæstaréttar og er hann birtur á heimasíðu réttarins ásamt niðurstöðu Hæstaréttar. Hefur nafn kvartanda verið afmáð úr dómnum fyrir birtingu, ásamt tilvísun til dóms Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013.

 

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd ekki tilefni til að beita þeim valdheimildum sem kveðið er á um í 40. gr. laga nr. 77/2000 í máli þessu. Þá verður ekki fallist á að tilefni sé til að Persónuvernd kæri málið til lögreglu,“ segir í úrskurði Persónuverndar.

Í spilaranum hér fyrir neðan má hlýða á viðtal við Pál úr Bítinu á Bylgjunni sem tekið var við hann árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×