Fótbolti

Verða á vellinum en ekki á hliðarlínunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfarateymi Íslands fær ekki að vera á hliðarlínunni gegn Belgum annað kvöld.
Þjálfarateymi Íslands fær ekki að vera á hliðarlínunni gegn Belgum annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson verða á vellinum er Ísland mætir Belgíu annað kvöld í Þjóðadeildinni. Þeir verða þó ekki á hliðarlínunni heldur upp í einu af „glerbúrunum“ eins og Freyr kallar það.

Í morgun greindist kórónusmit í starfsliði íslenska landsliðsins. Þorgrímur Þráinsson greindist með kórónuveiruna og hefur því allt starfslið Íslands verið sett í sóttkví. Samkvæmt upplýsingum almannavarna þarf þó enginn leikmaður að fara í sóttkví.

Þá staðfesti Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari landsliðsins, í viðtali við DV að hann og Erik Hamrén, þjálfari liðsins, megi vera á Laugardalsvelli þegar leikurinn fer fram. Þeir megi þó ekki vera á hliðarlínunni.

„Ég og Erik höfum fengið leyfi fyrir því að horfa á leikinn úr glerbúrinu á Laugardalsvelli,“ sagði Freyr í samtali við DV í kvöld. Freyr gaf ekki upp hver yrði á hliðarlínunni í stað þeirra.

Ofan á það að vera án þjálfarateymisins þá er íslenska liðið án töluvert af lykilmönnum. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er farinn aftur til Katar, Gylfi Þór Sigurðsson fær einnig frí á morgun. Kári Árnason meiddist gegn Rúmenum og verður ekki með. Alfreð Finnbogason og Ragnar Sigurðsson meiddust báðir gegn Danmörku og þá eru engir sénsar teknir með Jóhann Berg Guðmundsson.

Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 18:45 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 17:45.


Tengdar fréttir

Grunur um smit í umhverfi landsliðsins

Búið er að færa allar sóttvarnir í tengslum við leik Íslands og Belgíu upp um eitt stig vegna gruns um smit í umhverfi íslenska liðsins.

„Við viljum þetta meira en allt“

Birkir Bjarnason hefur ekki áhyggjur af því að leikmenn íslenska landsliðsins séu orðnir svo gamlir að þeir myndu eiga erfitt með að höndla álagið af því að spila aftur í lokakeppni stórmóts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×