Fótbolti

Grunur um smit starfsmanns KSÍ en Belgaleikur áfram á dagskrá

Sindri Sverrisson skrifar
Klara Bjartmarz fundar hér með landsliðsþjálfurunum fyrir æfingu landsliðsins í hádeginu.
Klara Bjartmarz fundar hér með landsliðsþjálfurunum fyrir æfingu landsliðsins í hádeginu. VÍSIR/VILHELM

Engin hætta er á því sem stendur að fresta þurfi leik Íslands og Belgíu þrátt fyrir grun um að starfsmaður knattspyrnusambands Íslands á Laugardalsvelli sé með kórónuveirusmit. Þetta segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Vísi. Leikurinn á að fara fram annað kvöld.

„Það er grunur um að það að einn af okkar starfsmönnum sé smitaður. Það er búið að sótthreinsa allt í döðlur hérna, fram og til baka,“ segir Klara.

Fótbolti.net greindi fyrst frá málinu eftir að ljósmyndari miðilsins varð vitni að auknum sóttvarnaviðbúnaði á æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.

Klara segir að téður starfsmaður sé tengdur íslenska landsliðshópnum en hafi þó „ekki endilega“ verið í tengslum við leikmenn íslenska liðsins síðustu daga. Íslenska landsliðið kom saman á mánudaginn í síðustu viku og hefur haldið sig fjarri fólki á hóteli sínu en farið á æfingar og í leiki á Laugardalsvelli.

Allur búnaður sem landsliðið notar, þar á meðal boltarnir, var hreinsaður fyrir æfinguna í dag.VÍSIR/VILHELM

„Þetta mál er allt í skoðun en liðið æfði í morgun og undirbýr sig fyrir leikinn. Leikmenn fóru í „test“ í gær og þeir greindust allir neikvæðir,“ segir Klara. En er hugsanlegt að leikmenn þurfi að fara í sóttkví?

„Við höfum engar upplýsingar sem að benda til þess. Við bíðum eftir frekari fyrirmælum frá okkar heilbrigðisyfirvöldum. Málið er í biðstöðu og þangað til fylgjum við öllum fyrirmælum og gætum að öllum sóttvörnum.“

Jafnframt sé ekkert sem bendi til þess að leikurinn fari ekki fram á morgun:

„Ekki nokkur skapaður hlutur. Ekki eins og staðan er núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×