Enski boltinn

Telur Gylfa verðskulda byrjunarliðssæti í Liverpool slagnum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gylfi Þór á æfingasvæðinu ásamt Ancelotti.
Gylfi Þór á æfingasvæðinu ásamt Ancelotti. vísir/Getty

Frábær frammistaða Gylfa Þórs Sigurðssonar með íslenska landsliðinu gegn Rúmeníu síðastliðinn fimmtudag fór ekki framhjá enskum blaðamönnum en fjallað er um frammistöðu Gylfa í Liverpool Echo.

Þar veltir Adam Jones, blaðamaður sem sérhæfir sig í málefnum Everton, því upp hvort Gylfi verðskuldi ekki byrjunarliðssæti á miðju Everton að loknu landsleikjahléinu.

Fyrsti leikur Everton eftir landsleikjahlé er stórleikur gegn erkifjendunum í Liverpool en sú sjaldgæfa staða er nú uppi í ensku úrvalsdeildinni að Everton er fyrir ofan Liverpool í töflunni með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

Jones telur Gylfa hafa búið til góðan hausverk fyrir Carlo Ancelotti, stjóra Everton, enda frammistaða liðsins í upphafi móts góð og kannski ekki rík ástæða til að gera breytingar á byrjunarliði sínu.

Hins vegar hafi Gylfi staðið sig vel þegar hann hefur komið inn á sem varamaður hjá Everton í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og raunar staðið sig betur en Portúgalinn Andre Gomes sem byrjað hefur við hlið Abdoulaye Doucoure og Allan á miðju Everton í undanförnum leikjum.

Gylfi verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli í kvöld þegar strákarnir okkar mæta Dönum í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×