Erlent

Segir Hvíta húsið hafa boðið upp á „ofur­dreifingu“ veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá fjölmennri athöfn í Rósagarði Hvíta hússins laugardaginn 26. september. Þar kynnti Trump Amey Coney Barrett sem hæstaréttardómaraefni sitt. Síðan hafa fjölmargir sem sóttu athöfnina greinst með kórónuveiruna.
Frá fjölmennri athöfn í Rósagarði Hvíta hússins laugardaginn 26. september. Þar kynnti Trump Amey Coney Barrett sem hæstaréttardómaraefni sitt. Síðan hafa fjölmargir sem sóttu athöfnina greinst með kórónuveiruna. Getty/The Washington Post

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, gagnrýnir ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta harðlega fyrir að hafa haldið viðburð í síðasta mánuði, sem talið er að hafi verið gróðrarstía kórónuveirunnar. Fauci segir að „ofurdreifing“ hafi orðið á veirunni á viðburðinum.

Trump greindist með kórónuveiruna í lok síðustu viku. Laugardaginn áður kynnti hann Amy Coney Barrett sem hæstaréttardómaraefni sitt við Hvíta húsið við fjölmenna athöfn. Myndir frá viðburðinum sýna fólk sitja þétt saman, flest grímulaust. Fjölmargir sem viðstaddir voru athöfnina hafa síðan greinst með kórónuveiruna, þar af margir úr starfsliði forsetans.

Anthony Fauci, einn helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna.Getty/Al Drago

Fauci var inntur eftir því í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS í dag hvað honum þætti um þá stefnu Bandaríkjastjórnar að koma til dæmis ekki á grímuskyldu.

„Ég held að tölurnar tali sínu máli,“ svaraði Fauci. „Það varð „ofurdreifing“ [á kórónuveirunni] á viðburði í Hvíta húsinu og það var við aðstæður þar sem fólk var þétt saman og bar ekki grímur. Þannig að tölurnar tala sínu máli.“ Þar vísaði Fauci til áðurnefndrar athafnar, hvar Barrett var kynnt sem hæstaréttardómaraefni.

Trump, sem greindist með veiruna fyrir rétt rúmri viku, mun koma fram í sjónvarpsviðtali á Fox-sjónvarpsstöðinni í kvöld. Þar hyggst hann jafnframt gangast undir læknisskoðun.

Þá mun Trump ávarpa hundruð áheyrenda á svölum Hvíta hússins á morgun. Þá verða tíu dagar liðnir frá því að forsetinn greindist, að sögn lækna hans. Á mánudag er svo fjöldafundur á dagskrá í Flórída, hvar búist er við að Trump ávarpi stuðningsmenn sína.

Ekkert verður hins vegar af kappræðum Trumps og mótframbjóðenda hans í forsetakosningunum, Joe Biden, sem ráðgert var að yrðu haldnar 15. október. Þetta kemur fram í tilkynningum frá báðum framboðum í dag. Trump hafði áður neitað að taka þátt í kappræðunum sem fara áttu fram í gegnum netið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×