Fótbolti

Þjálfari Rúmeníu telur ís­lenska liðið sterkast af Norður­landa­þjóðunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mirel Radoi á hliðarlínunni í leik Rúmeníu og Norður-Írlands í Þjóðadeildinni nýverið.
Mirel Radoi á hliðarlínunni í leik Rúmeníu og Norður-Írlands í Þjóðadeildinni nýverið. Alex Nicodim/Getty Images

Mirel Matei Rădoi, þjálfari Rúmeníu, segir íslenska liðið líkamlega sterkt og reiknar með erfiðum leik á morgun. Þá telur hann Ísland sterkast af þeim Norðurlandaþjóðum sem Rúmeníu hefur mætt en liðið var með Svíþjóð, Noregi og Færeyjum í riðli í undankeppni EM.

Þó veðrið um þessar mundir myndi flokkast sem veðurblíða fyrir okkur Íslendinga þá var Nicolae Stanciu, leikmanni rúmenska liðsins, ískalt í þann stutta tíma er hann ræddi við undirritaðan. 

Það var því við hæfi að spyrja Rădoi út í veðrið og hvort það gæti haft áhrif á morgun.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum. Það er á ensku og ótextað.

Klippa: Segir Ísland besta liðið á Norðurlöndunum

„Ég hafði áhyggjur af vellinum og grasinu í mars [þegar leikurinn átti að fara fram] en ég er búinn að skoða völlinn núna og hann er í frábæru ásigkomulagi.“

„Ég held að leikurinn á morgun verði jafn leikur. Vonandi þegar flautað verður til leiksloka verðum við liðið sem kemst áfram í úrslit umspilsins um sæti á EM næsta sumar,“ sagði Rădoi um leikinn annað kvöld.

„Hann var einn af okkar mikilvægustu mönnum, ekki aðeins í vörninni heldur einnig í liðinu en við erum með góða leikmenn sem geta fyllt skarð hans,“ sagði þjálfarinn um fjarveru Vlad Chiricheș, fyrirliða Rúmeníu.

„Ísland er með mjög líkamlega sterkt lið, við teljum okkur vita styrkleika þeirra nokkuð vel. Þeir spila 4-4-2 leikkerfi, það er mjög stutt á milli manna og þeir eru mjög þétt lið. Við verðum því að vera mjög þolinmóðir þegar við höfum boltann annars lendum við í miklum vandræðum,“ var svarið er Rădoi var spurður út í styrkleika íslenska liðsins.

Rúmenska liðið mætti Noregi, Svíþjóð og Færeyjum í F-riðli í undankeppninni. Telur hann það geta hjálpað Rúmeníu á morgun?

„Já en ég er viss um að Ísland er með sterkasta liðið af þeim öllum.“

„Við sjáum til hvað gerist. Við vitum hvaða kerfi við viljum spila en við verðum að finna og nýta styrkleika okkar sem og veikleika íslenska liðsins. Svo á þessum tíma get ég því miður ekki sagt þér nákvæmlega hvernig við munum spila,“ sagði Rădoi að lokum aðspurður hvort Rúmenía myndi spila 4-4-2 eða 4-2-3-1 annað kvöld. 

Rădoi virðist stilla upp í 4-4-2 gegn lakari mótherjum en á útivelli gegn Spáni, Noregi og Svíþjóð var iðulega stillt upp í 4-2-3-1 leikkerfi. Reikna má með því sama á morgun.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 á morgun en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×