Fótbolti

„Tólfan er ótrúleg og býr til stemmningu úr engu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson klappar saman lófum á æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun.
Aron Einar Gunnarsson klappar saman lófum á æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun. vísir/vilhelm

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, er ánægður að það sé loksins komið að leiknum gegn Rúmeníu í umspili um sæti á EM 2020.

„Þetta er búin að vera löng bið en við hlökkum til. Það er mikil spenna og menn eru klárir í leikinn. Mér líður eins og við séum búnir að undirbúa okkur það lengi að það ætti ekkert að koma okkur á óvart. Við erum vanir þessum pressuleikjum. Það er undir okkur komið hvernig við náum að stjórna þessum leik á morgun. Hann verður erfiður, við vitum það,“ sagði Aron Einar í samtali við Vísi fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.

Þurfum að nýta spennustigið rétt

Reynslan í íslenska hópnum er mikil og margir leikmenn þekkja það að spila stóra leiki. Kynslóðin sem Aron Einar tilheyrir spilaði t.a.m. sína fyrstu umspilsleiki gegn Skotum fyrir EM U-21 ára fyrir áratug. 

„Það mun skipta máli. Við ætlum að nýta okkur það rétt. Við þurfum að nýta spennustigið á réttan hátt og vonast til að þeir geri þessi stóru mistök sem skipta máli. Við erum búnir að undirbúa okkur vel fyrir þetta og vitum hvað þeir koma til með að vera góðir í en þurfum að nýta okkur þeirra slæmu punkta,“ sagði Aron Einar.

Aron Einar leikur sinn 88. landsleik á morgun.vísir/vilhelm

Það verður tómlegt um að litast í stúkunni á Laugardalsvelli á morgun. Hún verður þó ekki tóm því 60 meðlimir Tólfunnar verða á leiknum og munu væntanlega láta vel í sér heyra.

Vildum auðvitað hafa fullan völl

„Tólfan er ótrúleg og býr til stemmningu úr engu. Það er klárt mál. Við erum allavega með þá og þakklátir fyrir það. En þetta er úr okkar höndum. Auðvitað vildum við hafa fullan völl en það er ekki þannig,“ sagði Aron Einar. „Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum og hvernig við spilum þennan leik. Þá hef ég engar áhyggjur af þessu.“

Aron Einar vildi ekki mikið ræða rúmenska liðið en sagði þó að það væri verðugur andstæðingur.

„Þeir eru flinkir, góðir einn á einn. Þeir vilja teygja völlinn og við þurfum að vera traustir og þéttir og nýta okkar styrkleika,“ sagði Aron Einar að endingu.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 á morgun en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.

Klippa: Viðtal við Aron Einar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×