Erlent

Ummæli Trump um veiruna hrella lækna

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump gerði mikið úr því þegar hann sneri aftur í Hvíta húsið eftir sjúkrahúsleguna í gær. Hann var ekki fyrr kominn þangað en hann reif af sér grímuna.
Trump gerði mikið úr því þegar hann sneri aftur í Hvíta húsið eftir sjúkrahúsleguna í gær. Hann var ekki fyrr kominn þangað en hann reif af sér grímuna. AP/Alex Brandon

Lýðheilsu- og faraldsfræðingar eru forviða eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði þjóð sinni að „óttast ekki“ kórónuveiruna og tók af sér grímu þrátt fyrir að vera sjálfur smitaður í gær. Orð og æði forsetans ganga þvert á tilmæli ríkisstjórnar hans vegna faraldursins sem hefur orðið meira en 210.000 manns að bana í landinu.

Trump var í gær útskrifaður af Walter Reed-hersjúkrahúsinu þar sem hann dvaldi í þrjár nætur eftir að hann greindist smitaður af kórónuveirunni seint á fimmtudag. Forsetanum var gefið súrefni þegar súrefnismettun í blóði hans féll. Þá voru honum gefin ýmis lyf, þar á meðal sterar og veirulyf.

Sneri forsetinn aftur í Hvíta húsið skömmu eftir að hann lýsti því yfir á Twitter að Bandaríkjamenn ættu ekki að óttast veiruna eða láta hana stjórna lífi sínu. Lét Trump mynda sig á tröppum Hvíta hússins þar sem hann reif af sér grímu.

Ekki er þó ljóst hvort að Trump hafi náð sér af veikindunum að fullu eða hvort að hann greinist nú neikvæður fyrir henni. Tímasetningar um hvenær forsetinn greindist fyrst smitaður hafa verið á reiki en almennt er talað um að alvarleg veikindi geti komið fram svo seint sem á áttunda til tíunda degi frá smiti.

Faraldsfræðingum liggur við uppsölum

Einhverjir höfðu vonast til þess að veikindi Trump ættu eftir að breyta afstöðu hans til faraldursins sem hann hefur lagt allt kapp á að gera lítið úr til þessa. Hann myndi jafnvel loksins hvetja fólk til þess að ganga með grímu. Ummæli hans og athafnir í gær kæfðu allar vonir um slíkt. Ekki aðeins tók Trump af sér grímuna heldur gekk hann inn í Hvíta húsið grímulaus.

„Hvaða starfsmaður Hvíta hússins ætti að vilja koma í vinnuna á morgun??? Faraldsfræðingar þurfa bara að æla,“ tísti Eric Feigl-Ding, faraldsfræðingur við Samband bandarískra vísindamanna, í gær.

Tugir annarra lýðheilsusérfræðinga tóku í sama streng.

„Ég má vart mæla, þetta er klikkað. Þetta er bara svo algerlega ábyrgðarlaust,“ sagði Harald Schmidt, aðstoðarprófessor í heilbrigðissiðferði við Háskólann í Pennsylvaníu.

William Schaffner, sérfræðingur í smitsjúkdómum við Vanderbilt-læknaháskólann í Tennessee, sagði skilaboð Trump til þjóðarinnar hættuleg því þau hvetji stuðningsmenn forsetans til þess að hunsa tilmæli yfirvalda sem eiga að tryggja öryggi þeirra.

„Þetta leiðir til meiri kærulausrar hegðunar sem leiðir til fleiri smita veirunnar sem leiðir til meiri veikinda og meiri veikindi leiða til fleiri dauðsfalla,“ sagði Schaffner, að sögn New York Times.

Trump hefur reynt að gera sem minnst úr veikindum sínum undanfarna daga.AP/Alex Brandon

Virðist þvert á tilmæli heilbrigðisyfirvalda

Judd Deere, talsmaður Hvíta hússins, fullyrti í gær að gripið hefði verið til allra nauðsynlegra varúðarráðstafana til þess að tryggja öryggi Trump, fjölskyldu hans og starfsliðs.

„Aðgangur að forsetanum í persónu verður verulega takmarkaður og viðeigandi hlífðarbúnaður verður notaður þegar fólk er nálægt honum,“ sagði Deere í svari til Washington Post.

Læknar myndu áfram fylgjast með líðan forsetans til að tryggja að hann nái fullum bata.

Þessi tilhögun gengur þó gegn tilmælum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) um að fólk sem greinist smitað af Covid-19 bíði í að minnsta kosti tíu daga frá því að fær einkenni með að hitta annað fólk.

Það gerði einnig bílferð sem Trump fór í fyrir utan Walter Reed-sjúkrahúsið á sunnudag. Lét Trump lífverði sína aka með sig til að hann gæti heilsað stuðningsmönnum sínum fyrir utan sjúkrahúsið og gerði þá þannig útsetta fyrir smiti.

Trump tísti í hádeginu þar sem hann sagði að flensutímabilið væri að hefjast. Að margir deyi á hverju ári vegna flensu og stundum fleiri en hundrað þúsund manns. Það sé þrátt fyrir bóluefni.

„Ætlum við að loka landinu okkar?“ spurði forsetinn og svaraði: „Nei, við verðum að læra að lifa með þessu, eins og við erum að læra að lifa með Covid, í flestum hópum mun minna banvænt!!!“

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna áætlar að flensan hafi valdið 12 til 61 þúsund dauðsföllum á ári, frá 2010.


Tengdar fréttir

Leyni­þjónustan ó­sátt við að Trump stefndi heilsu líf­varða í hættu

Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að láta tvo lífverði frá leyniþjónustunni aka með sig fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hann dvelur til að hann gæti heilsað stuðningsmönnum sínum þrátt fyrir að hann sé smitaður af kórónuveirunni hefur vakið furðu og fordæmingu leyniþjónustunnar og lækna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×