Íslenski boltinn

Svona var blaða­manna­fundur Hamréns og Freys fyrir Rúmeníu­leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland tapaði fyrir Englandi og Belgíu í síðustu landsleikjum, í Þjóðadeildinni, en var þá án margra fastamanna.
Ísland tapaði fyrir Englandi og Belgíu í síðustu landsleikjum, í Þjóðadeildinni, en var þá án margra fastamanna. Getty/Hafliði Breiðfjörð

Vísir var með beina útsendingu og textalýsingu frá blaðamannafundi KSÍ þar sem hópur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta leikina gegn Rúmeníu, Danmörku og Belgíu var kynntur í dag. Textalýsinguna má sjá hér að neðan.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari gat valið sinn sterkasta hóp ef undan er skilinn Hólmbert Aron Friðjónsson sem kom vel inn í liðið í síðustu landsleikjum að mati Hamréns en er meiddur.

Þetta þýðir að Jóhann Berg Guðmundsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Ragnar Sigurðsson, Rúnar Már Sigurjónsson og Alfreð Finnbogason snúa allir aftur í hópinn eftir að hafa misst af leikjunum í september af ólíkum ástæðum.

Valsarinn Birkir Már Sævarsson er í hópnum eftir langa fjarveru, eftir góða frammistöðu að undanförnu í Pepsi Max-deildinni. Ekki var pláss fyrir menn á borð við Jón Guðna Fjóluson og Emil Hallfreðsson sem vanalega hafa átt sæti í hópnum.

Allir þrír leikirnir í þessari landsleikjatörn fara fram á Laugardalsvelli. Ísland mætir Rúmeníu í umspili um sæti á EM fimmtudaginn 8. október. Sunnudaginn 11. október mætast Íslendingar og Danir í Þjóðadeildinni og þremur dögum síðar tekur Ísland á móti Belgíu í sömu keppni.

Ef Ísland vinnur Rúmeníu mætir liðið annað hvort Búlgaríu eða Ungverjalandi 12. nóvember í hreinum úrslitaleik um sæti á EM sem fer fram víðs vegar um Evrópu á næsta ári.

Íslendingar eru án stiga í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Ísland tapaði 0-1 fyrir Englandi á Laugardalsvelli og 5-1 fyrir Belgíu í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×