Enski boltinn

Liverpool selur Brewster fyrir 23,4 milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rhian Brewster fagnar marki með Liverpool á undirbúningstímabilinu.
Rhian Brewster fagnar marki með Liverpool á undirbúningstímabilinu. Getty/John Powell

Ungur framherji Liverpool á að koma til bjargar í markaleysi Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni.

Sheffield United hefur samþykkt að borga Liverpool 23,4 milljónir punda fyrir enska unglingalandsliðsmanninn Rhian Brewster en enskir miðlar eins og Guardian og BBC greina frá þessu. Þetta eru meira en fjórir milljarðar íslenskra króna.

Liverpool hefur þó ekki alveg slitið tengslin við Rhian Brewster því hluti af samkomulaginu er að Liverpool getur keypt leikmanninn aftur á næstu þremur tímabilum. Liverpool fær líka fimmtán prósent af næstu sölu á Rhian Brewster.

Rhian Brewster er tvítugur unglingalandsliðsmaður og margir héldu að hann yrði framtíðarframherji Liverpool liðsins. Það hefur hins vegar gengið illa hjá honum að vinna sér sæti í aðalliðinu.

Rhian Brewster var í láni hjá Swansea í ensku b-deildinni á síðasta tímabili þar sem hann skoraði 11 mörk í 22 leikjum. Brewster lék aðeins fjóra leiki með Liverpool á síðasta tímabili og engan þeirra í ensku úrvalsdeildinni.

Rhian Brewster klikkaði á víti í tapi Liverpool á móti Arsenal í leiknum um Samfélagsskjöldinn í lok ágúst. Mohamed Salah, Roberto Firmino og Sadio Mané eru fastmenn í framlínu Liverpool og þeir Divock Origi og Diogo Jota voru báðir á undnan honum í goggunarröðinni.

Sheffield United þarf svo sannarlega á mörkum að halda en liðið hefur ekki skorað eitt einasta mark í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×