Innlent

Sagði stefnu ríkisstjórnarinnar vera fáránlega

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skaut á ríkisstjórnina.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skaut á ríkisstjórnina. vísir/vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, greip orð Katrínar Jakobsdóttur í stefnuræðu hennar um franska rithöfundinn Albert Camus á lofti, í andsvari hans við stefnuræðunni. Sagði hann að stefna ríkisstjórnarinnar væri í anda Camus.

„Hún er absúrd, hún er fáranleg,“ sagði Sigmundur Davíð eftir að hafa útskýrt að Camus hafi skilgreint sig sem absúrdista eða fáránleikasinna. Katrín hafði í stefnuræðu sinni vísað í Pláguna, bók eftir Camus.

Í ræðu sinni gagnrýndi Sigmundur Davíð stjórnarflokkanna þrjá fyrir að halda áfram með það sem hann kallaði „endalausa runa kerfismála sem flest snúast um að sýna að Ísland sé þægasti krakkinn á upptökuheimili Evrópusambandsins.“

Horfa má á beina útsendingu frá eldhúsdagsumræðunum hér.

Sagði hann málefnaskrá ríkistjórnarinnar raunar vera „uppfulla af furðumálum“

„Hún boðar lögleiðingu fíkniefna, hvorki meira né minna, en virðist í staðinn ætla að beita sér gegn nikótínpúðum og rafrettum.

Gerð verður önnur tilraun til að vega að starfi íslenskra leigubílstjóra á sama tíma og þeir hafa orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu án þess að fá mikla aðstoð. Nú á að rústa íslenskri nafnahefð sem hefur varðveist frá landnámi og þar til þessi ríkisstjórn tók við.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki gleymt áformum sínum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga,“ sagði Sigmundur.

Að lokum spurði hann til hvers ríkisstjórnin hafi eiginlega verið mynduð.

„Er eitthvað í síðustu málaskrá ríkisstjórnarinnar sem hefði ekki átt jafnvel við og reyndar enn betur ef Vinstri græn væru í ríkisstjórn með t.d. Pírötum og Viðreisn? Þetta þarf ekki að vera svona, það er annar valkostur, og það munu þingmenn Miðflokksins sýna nú á nýju þingi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.