Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - KR 0-2 | Víkingar án sigurs í 12 leikjum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Óskar Örn Hauksson þandi netmöskvana í kvöld.
Óskar Örn Hauksson þandi netmöskvana í kvöld. VÍSIR/BÁRA

Íslandsmeistarar KR lögðu bikarmeistara Víkings í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í kvöld. Líkt og í fyrri leiknum fór leikurinn 2-0 fyrir KR.

Í fyrri leik liðanna fengu þrír Víkingar rautt spjald en leikurinn í kvöld var töluvert rólegri. Guðjón Orri Sigurjónsson lék sinn fyrsta leik í sumar fyrir KR og gerði sér lítið fyrir er hann varði vítaspyrnu í fyrri hálfleik.

Gangur leiksins

KR byrjaði leikinn vægast sagt af krafti. Óskar Örn Hauksson keyrði upp völlinn, gaf fyrir og Ægir Jarl Jónasson kemur boltanum í netið. Bæði liðin börðust af krafti. Mikið um skyndisóknir en KR voru samt sem áður með yfirhöndina, enda marki yfir.

Á 31. mínútu leiksins brýtur Ægir Jarl á Adam Ægi inn í teig og Víkingur fær vítaspyrnu. Erlingur Agnarsson fer á punktinn en Guðjón Orri Sigurjónsson sá við honum og varði.

Staðan þegar flautað var til hálfleiks 0-1 KR í vil. 

Þegar flautað var til seinni hálfleiks byrjuðu KR að krafti. Víkingur lét samt aldrei deigan síga og sóttu einnig af krafti en fóru heldur illa með góð færi.

Seinni hálfleikur var aðeins tíðinda minni heldur en sá fyrri.

Það dró til tíðinda á 71. mínútu þegar að Óskar Örn Hauksson var búin að koma sér vel fyrir inn í teig og skoraði annað mark fyrir KR.

Staðan 0-2 þegar flautað var til leiksloka og KR því með þrjú stig út úr þessum leik. KR sem fyrr í 6. sæti deildarinnar en nú aðeins stigi á eftir þremur næstu liðunum, og með leik til góða á bæði Fylki og Breiðablik.

Víkingur er enn í 10. sæti en liðið hefur ekki unnið leik síðan 19. júlí.

Af hverju vann KR?

KR komu sér í kjörstöðu í byrjun leiks eftir mark frá Ægi Jarl á 35. sekúndu leiksins. Ekki skemmdi fyrir þegar að Guðjón Orri varði víti á 31. mínútu leiksins og hvað þá þegar að Óskar Örn kemur þeim tveimur mörkum yfir á 71. mínútu.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá KR var það Óskar Örn Hauksson sem var gríðarlega öflugur. Hann var með stoðsendingu í fyrsta markinu og skoraði svo annað markið. Ægir Jarl var einnig góður og skoraði fyrsta markið.

Guðjón Orri kom sterkur inn í markinu, varði víti og hélt hreinu allan leikinn. Gríðarlega sterk byrjun.

Hjá Víking var það Davíð Örn Atlason sem var öflugur í fyrri hálfleik. Duglegur að keyra upp völlinn og reyna koma þeim í færi. Ennig var það Ágúst Eðvald Hlynsson sem skaut hvað mest á markið en boltinn datt hinsvegar aldrei inn.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Víking að skora. Þeir voru gríðarlega öflugir og voru að spila ungu liði í kvöld en það vantaði þennan herslumun að koma boltanum inn.

Hvað er framundan?

Bæði lið eiga leik á sunnudaginn 4. október. Víkingur tekur á móti KA í Víkinni kl 14:00. KR sækir HK heim í Kórinn kl 17:00. Báðir leikirnir eru sýndir á Stöð2sport.

Adam Ægir Pálsson og þjálfari Víkings, Arnar Gunnlaugsson.Víkingur

Arnar Gunnlaugs: Þetta tímabil er búið að vera mikil vonbrigði

„Ég er ánægður með strákana. Við vorum flottir í dag. Við vorum með laskað lið í dag, það vantaði nokkra pósta en við reyndum að gefa KR leik og mér fannst við gera það. Við klúðruðum mörgum færum og KR áttu sín móment en heilt yfir er ég mjög ánægður með strákana,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings eftir leik.

„Þeir gáfu allt í leikinn. Við vorum með marga unga og mjög skemmtilega stráka í lokinn. Ég er mjög sáttur með spilamennskuna að mörgu leiti en auðvitað alltaf súrt að tapa. Ég held að KR hafi sloppið vel með þennan 2-0 sigur.“

Eins og fyrr hefur komið fram skoruðu KR strax á fyrstu mínútu leiksins en einnig klúðruðu Víkingur víti.

„Við klúðrum víti og nokkrum dauða færum í stöðunni 1-0 og gáfum þeim rosalega ódýrt mark í byrjun leiks, en heilt yfir var ég mjög ánægður með strákana okkar.“

„Við erum ekki með neina framherja lengur. Helgi kom inná í hálfleik, fyrsta leikinn sinn. Við seldum Óttar og þetta er bara staða sem er mjög specialized staða. Það er ástæða fyrir að centerar fá mest borgað. Þeir skora mörkin. Mér fannst eins og við gætum spilað í tvo sólahringa og ekki fengið neitt mark út úr því.“

Víkingur tekur á móti KA í næsta leik

„Við ætlum að reyna klára mótið með sæmd, þetta er orðið þreytt. Við erum ekki búnir að vinna marga leiki. Búnir að gera mikið af jafnteflum og tapa og þá er svona kominn hugsunarháttur að fara í frí í hausnum. Við þurfum að klára þetta mót. Sex leikir eftir og gera okkar besta í þeim leikjum sem eftir eru.“

„Þetta tímabil er búið að vera mikil vonbrigði og allt það en það er margt gott í leik liðsins. Við erum að sýna mjög góðar tölur og ég veit að fólk mun hlægja af þessu en tölfræði skiptir miklu máli þegar þú ætlar að byggja grunn og við erum að clocka mjög góðar tölur í possession og sendingum og fyrirgjöfum og færum nema að skora mörk,“ sagði Arnar að lokum.

Guðjón Orri Sigurjónsson:

,,Ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn. Þetta var góður sigur hjá okkur. Við höfðum mikið fyrir honum og vorum þannig séð komnir upp við vegg svo þetta eru kærkomin þrjú stig og við þurfum að halda áfram að ná í punkta og sjá hverju það skilar okkur,“ sagði Guðjón Orri Sigurjónsson, markmaður KR eftir sigur á Víking í kvöld.

Guðjón Orri kom inn í liðið í staðinn fyrir Beiti sem fékk beint rautt spjald og gerði sér lítið fyrir og varði víti. Ágætis innkoma það.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira