Enski boltinn

Stjóri Benfica segir að Rúben Dias sé farinn til minna félags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúben Dias í búningi Manchester City.
Rúben Dias í búningi Manchester City. getty/Matt McNulty

Jorge Jesus, knattspyrnustjóri Benfica, þurfti að sjá á eftir einum sínum besta leikmanni, Rúben Dias, til Manchester City. Hann gat ekki stillt sig um að skjóta aðeins á nýju vinnuveitendur Dias þegar hann kvaddi leikmanninn.

„Þú ert að fara frá frábæru félagi sem er stærra en City. Það er bara ekki stærra hvað fjárhagslegu hliðina varðar. Og það er það sem skiptir máli,“ sagði Jesus.

Benfica fékk 51 milljón punda og argentíska miðvörðinn Nicolás Otamendi fyrir Dias. Þessi 23 ára miðvörður skrifaði undir sex ára samning við City.

Dias er þriðji leikmaðurinn sem City kaupir í sumar. Áður hafði félagið fest kaup á hollenska miðverðinum Nathan Aké frá Bournemouth og spænska kantmanninum Ferran Torres frá Valencia.

Dias varð portúgalskur meistari með Benfica í fyrra auk þess sem hann var í sigurliði Portúgals í Þjóðadeildinni. Hann var valinn maður leiksins í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar þar sem Portúgalir unnu Hollendinga, 1-0. Dias hefur leikið nítján landsleiki.

City mætir Burnley á Turf Moor í 4. umferð enska deildabikarsins klukkan 18:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×