Fótbolti

Íslendingalið Olympiacos komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ögmundur er leikmaður Olympiacos í Grikklandi.
Ögmundur er leikmaður Olympiacos í Grikklandi. Vísir/Larissa

Gríska stórliðið Olympiacos tryggði sæti sitt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld er liðið gerði markalaust jafntefli við Omonia Nicosia frá Kýpur.

Olympiacos vann fyrri leik liðanna 2-0 og því dugði markalaust jafntefli til komast áfram. Landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson leikur með Olympiackos en hann var ekki í leikmannahóp liðsins í kvöld.

Önnur úrslit kvöldsins voru þau að Dynamo Kiyv komst í riðlakeppnina eftir 3-0 sigur á belgíska liðinu Gent. Ferencváros frá Ungverjalandi komst einnig áfram eftir markalaust jafntefli en þeir slógu Molde frá Noregi út. Fyrri leik liðanna lauk með 3-3 jafntefli og því fór ungverska félagið áfram þökk sé útivallarmarkareglunni.

Tvö önnur Íslendingalið geta leikið þetta eftir annað kvöld. Sverrir Ingi Ingason og félagar í gríska félaginu PAOK þurfa sigur gegn rússneska félaginu Krasnodar á heimavelli eftir að hafa tapað 2-1 í Rússlandi. Leikur liðanna er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 annað kvöld.

Þá leika Danmerkurmeistarar Midtjylland gegn Slavia Prag á heimavelli en fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli. Mikael Neville Anderson leikur með Midtjylland en hann hefur verið orðaður frá félaginu undanfarnar vikur. Vísir greindi frá fyrr í dag á að félagið hafi ekki áhuga á að selja hann fyrr en eftir EM næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×