Erlent

Vann stórsigur í kosningum tveimur vikum eftir andlát sitt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Íbúar í Deveselu hafa víða hengt myndir af bæjarstjóranum til að minnast hans.
Íbúar í Deveselu hafa víða hengt myndir af bæjarstjóranum til að minnast hans. Mynd/AP

Ion Aliman, bæjarstjóri í Deveselu, rúmlega 3.000 manna þorpi í suðurhluta Rúmeníu, hlaut 64 prósent atkvæða í bæjarstjórnarkosningum í þorpinu á dögunum og taldist því hafa tryggt sér endurkjör til embættis bæjarstjóra öðru sinni. Hann lést þó úr Covid-19 tveimur vikum fyrir kosningarnar.

Breska ríkisútvarpið fjallar um málið og hefur eftir embættismönnum í bænum að búið hafi verið að prenta kjörseðla fyrir kosningarnar áður en Aliman lést þann 15. september í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu. Ekki hafi unnist tími til að prenta nýja og því fór svo að hann hlaut 64 prósent atkvæða. Fyrirhugaðar eru aðrar kosningar þar sem þorpsbúar munu þurfa að velja sér nýjan bæjarstjóra.

Svo virðist sem Aliman hafi verið afar vinsæll meðal íbúa Deveselu, en myndbönd á samfélagsmiðlum sýna hvar íbúar þorpsins safnast að gröf hans og heiðra hann með fallegum orðum. Meðal annars má heyra íbúa lýsa því yfir að Aliman hafi átt kosningasigurinn skilinn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem borgarstjóri í Rúmeníu nær endurkjöri eftir andlát sitt. Árið 2008 var Neculai Ivascu endurkjörinn bæjarstjóri í Voinesti, eftir að hann lést úr lifrarsjúkdómi. Þá voru þó ekki haldnar aðrar kosningar, heldur var frambjóðandanum sem var næst atkvæðamestur dæmdur sigur. Sú ákvörðun var afar umdeild, að því er fram kemur á vef BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×