Íslenski boltinn

Segist hafa þurft að útskýra fyrir börnunum sínum að hann sé ekki svindlari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason hefur verið mikið milli tannanna á fólki síðasta sólarhringinn.
Ólafur Ingi Skúlason hefur verið mikið milli tannanna á fólki síðasta sólarhringinn. vísir/vilhelm

Ólafur Ingi Skúlason, spilandi aðstoðarþjálfari Fylkis, segist afar ósáttur með ummæli Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, í sinn garð og segir þau honum til skammar. Hann segir að atvikið í leik Fylkis og KR í gær og eftirmálar þess hafi haft áhrif á fjölskyldu sína.

Fylkir vann KR, 1-2, á dramatískan hátt á Meistaravöllum í gær. Sam Hewson skoraði sigurmark Árbæinga úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Hún var dæmd eftir að Beitir Ólafsson, markvörður KR, slæmdi hendi í Ólaf Inga. Beitir fékk rauða spjaldið fyrir brotið. Ólafur Ingi er á því að dómari leiksins, Ívar Orri Kristjánsson, hafi tekið rétta ákvörðun þegar hann dæmdi víti og rak Beiti af velli.

„Ekki spurning. Myndirnar tala sínu máli. Hann veit af mér og er með hendurnar í ónáttúrulegri stöðu. Hann gerir sig bara sekan um að gefa mér högg og fær réttilega dæmt á sig víti og rautt spjald,“ sagði Ólafur Ingi í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportpakkanum.

Rúnar var mjög ósáttur eftir leik og vandaði Ólafi Inga ekki kveðjurnar. 

„Fíflagangurinn í Ólafi Inga Skúlasyni. Hann leitar með höfuðið í höndina á Beiti þegar hann er löngu búinn að kasta boltanum út. Hann er bara með leikrit og hann hefur gert þetta oft áður og hann er að reyna að eyðileggja leikinn á þennan hátt. Þegar lið vinna á þennan hátt þá er þetta bara svindl og svínarí. Það er ofboðslega leiðinlegt að horfa upp á þetta,“ sagði Rúnar við Vísi eftir leik.

Ólafur Ingi er ekki sáttur með ummæli Rúnars og þykir hann hafa farið yfir strikið.

„Þetta kom mér á óvart. Ég þekki Rúnar ekkert rosalega vel en hann virðist venjulega vera rólegur og yfirvegaður maður. Ég á ekki erfitt með að taka svona ummælum. En það er svolítið mikið þegar maður þarf að útskýra fyrir börnunum sínum að pabbi sé ekki svindlari. Ég á þrettán ára stelpu sem spilar fótbolta og auðvitað gæti þetta haft áhrif á hana,“ sagði Ólafur Ingi.

„Mér er svo sem alveg sama hvað Rúnari finnst um mig. Það hafa allir sínar skoðanir á fólki. En ég held að maður þurfi aðeins að passa sig þegar maður talar á opinberum vettvangi. Mér finnst ekki í lagi að láta svona orð falla. Og þetta er honum svolítið til skammar.“

Ólafur Ingi rifjaði upp atvik sem átti sér stað í leik KR og Víkings fyrr í sumar. Þar viðurkenndi Kristján Flóki Finnbogason, framherji KR, að hafa fiskað Kára Árnason, varnarmann Víkings, af velli.

„Ég ætla ekki að bera það saman við það því ég er ekki að segja að ég hafi farið létt niður. Ég er að segja að það hafi verið hundrað prósent brot og rautt spjald. En hann [Rúnar] hrósaði sínum leikmanni fyrir að vera klókur, fyrir að fara auðveldlega niður. Þá finnst mér við komnir út á hættulegar slóðir þegar eitt gengur yfir þína leikmenn en annað yfir aðra,“ sagði Ólafur Ingi.

Viðtal Ríkharðs við Ólaf Inga má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Ólafur Ingi um atvikið gegn KR

Tengdar fréttir

Rýndu í rauða spjaldið sem Beitir fékk og gerði Rúnar foxillan

„Þegar lið vinna á þennan hátt þá er það bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, um lokin á leiknum við Fylki í gær. Kjartan Atli Kjartansson og Hjörvar Hafliðason rýndu í það sem þar gerðist í Pepsi Max tilþrifunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.