Erlent

Notar reynslu sína af fyrir­myndar­skimun Ís­lendinga til að gagn­rýna ríkis­stjórn Trumps

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Roxane Gay er einkum þekkt fyrir ritstörf sín.
Roxane Gay er einkum þekkt fyrir ritstörf sín. Vísir/getty

Bandaríski rithöfundurinn Roxane Gay segir kórónuveiruskimun Íslendinga við landamærin og aðrar sóttvarnarráðstafanir stjórnvalda til fyrirmyndar í samanburði við það sem viðhaft er í Bandaríkjunum. Gay, sem kveðst stödd á Íslandi, notar samanburðinn til að gagnrýna viðbrögð Bandaríkjastjórnar við faraldrinum.

Gay er þekkt víða um heim fyrir bækur sínar, sem einkum snúast um femínisma, útlitsdýrkun og líkamsvirðingu. Þekktustu rit hennar eru ritgerðasafnið Bad Feminist, smásagnasafnið Difficult Women og sjálfsævisagan Hunger.

Gay kom til Íslands nú í vikunni og virðist enn stödd hér á landi ef marka má færslur hennar á Twitter, hvar fylgja henni nær átta hundruð þúsund manns.

„Það fyrsta sem ég hugsaði við lendingu í Keflavík var að ég yrði að minnsta kosti ekki myrt af lögreglumanni næstu tíu dagana. Þetta er hugarástandið sem ég er í núna,“ skrifaði Gay í fyrradag. Þar vísar hún til ástandsins í Bandaríkjunum síðustu mánuði, þar sem lögregla hefur víða gengið hart fram gegn almennum borgurum sem safnast hafa saman til að mótmæla lögregluofbeldi gegn svörtum. Gay á rætur að rekja til Haítí og er sjálf svört.

Þá tekur Gay reynslu sína af landamæraskimun til umfjöllunar á Twitter í gær.

„Þegar maður kemur til Íslands fer maður í sýnatöku fyrir Covid, fimm daga sóttkví og svo aðra sýnatöku. Maður hleður niður smáforriti sem segir þér hvaða upplýsingar það vill og af hverju (smitrakning). Við fengum fyrstu niðurstöður okkar eftir sextán klukkutíma. Það að leyfa 201 þúsund manns að deyja er meðvituð ákvörðun,“ skrifar Gay.

„Ég er ekki að reyna að segja að það sé til fyrirmyndarríki. Það er ekki til. Það sem ég er að benda á er að það er hægt að heyja baráttu við faraldurinn. Það eru til kerfi í löndum í Evrópu, Asíu og Afríku. Þessi lönd sitja ekki á vitneskju sinni. Bandaríkin hafa einfaldlega ákveðið að hafna vitneskju, vísindum og heilbrigðri skynsemi af pólitískum ástæðum. Það er sannarlega svívirðilegt.“

Gay er yfirlýstur andstæðingur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og er greinilega afar óánægð með viðbrögð ríkisstjórnar hans við faraldrinum. Trump-stjórnin hefur enda verið gagnrýnd harðlega fyrir að grípa seint og illa til aðgerða gegn veirunni. 

Langflest tilfelli veirunnar á heimsvísu, eða tæpar sjö milljónir, hafa greinst í Bandaríkjunum og þar hafa jafnframt langflestir látist úr Covid, eða rúmlega 200 þúsund, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins-háskóla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.