Enski boltinn

Rúnar Alex gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Arsenal og Gylfi vill halda uppteknum hætti í deildabikarnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson á æfingu með Arsenal.
Rúnar Alex Rúnarsson á æfingu með Arsenal. getty/Stuart MacFarlane

Rúnar Alex Rúnarsson gæti þreytt frumraun sína með Arsenal þegar liðið sækir Leicester City heim í 3. umferð enska deildabikarsins í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Rúnar var kynntur sem leikmaður Arsenal á mánudaginn. Hann kom til Lundúnaliðsins frá Dijon í Frakklandi. Rúnar skrifaði undir fimm ára samning við Arsenal.

Bernd Leno er aðalmarkvörður Arsenal en gæti hvílt í leikjum í deildabikarnum og Evrópudeildinni og Rúnar fengið tækifæri í hans stað.

Everton verður að öllum líkindum í byrjunarliði Everton sem sækir C-deildarlið Fleetwood Town heim. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Gylfi skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-0 sigri Everton á D-deildarliði Salford City í 2. umferð deildabikarsins í síðustu umferð.

Everton hefur unnið báða leiki sína í ensku úrvalsdeildinni til þessa. Gylfi byrjaði á bekknum í leikjunum tveimur.

Knattspyrnustjóri Fleetwood er hinn afar umdeildi Joey Barton. Hann var stuðningsmaður Everton í æsku og var í unglingaakademíu félagsins.

Þá mætast Íslendingaliðin Millwall og Burnley á The Den í London. Jóhann Berg Guðmundsson er fjarri góðu gamni hjá Burnley vegna meiðsla en Jón Daði Böðvarsson gæti komið við sögu hjá Millwall.

Selfyssingurinn hefur komið við sögu í einum leik með Millwall á þessu tímabili. Liðið er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku B-deildinni.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.