Fótbolti

Mínútu þögn í stað þess að krjúpa

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið mætir Svíþjóð í kvöld eftir stórsigur gegn Lettlandi á fimmtudag. Mínútu þögn verður fyrir leikinn til minningar um fyrrverandi formann sænska knattspyrnusambandsins.
Íslenska landsliðið mætir Svíþjóð í kvöld eftir stórsigur gegn Lettlandi á fimmtudag. Mínútu þögn verður fyrir leikinn til minningar um fyrrverandi formann sænska knattspyrnusambandsins. VÍSIR/VILHELM

Leikmenn íslenska og sænska landsliðsins í fótbolta hugðust krjúpa á hné fyrir stórleikinn á Laugardalsvelli í kvöld, til stuðnings réttindabaráttu svartra, en hafa hætt við. Þess í stað verður einnar mínútu þögn.

Sænska liðið kraup fyrir leik sinn við Ungverjaland síðasta fimmtudag, og hlaut einhverja gagnrýni fyrir, en Caroline Seger sagði í samtali við Vísi í hádeginu í gær að leikurinn yrði endurtekinn á Laugardalsvelli í dag. Sænska liðið væri lið sem berðist fyrir mannréttindum.

Og íslenska liðið ætlaði einnig að krjúpa: „Við auðvitað tökum þátt í því ef að það er gert og styðjum þessa baráttu. Engin spurning,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, sem raunar er samherji Seger hjá Rosengård í Svíþjóð.

Klippa: Glódís hugðist krjúpa

En skömmu eftir að Seger ræddi við Vísi bárust fréttir af því að Lars-Åke Lagrell, sem var formaður sænska knattspyrnusambandsins í yfir 20 ár, væri látinn, 80 ára að aldri.

Lagrell er talinn eiga stóran þátt í sterkri stöðu knattspyrnu kvenna í Svíþjóð og nú hefur sænska knattspyrnusambandið tilkynnt að í stað þess að leikmenn krjúpi fyrir leikinn í kvöld, verði einnar mínútu þögn til minningar um Lagrell. Bæði lið munu heiðra minningu hans.

Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst kl. 18 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Þjálfari Svía: Íslenska liðið spilar svolítið líkt okkur

Landsliðsþjálfari Svíþjóðar, Peter Gerhardsson, segir leitt að geta ekki skoðað sig um í Reykjavík vegna kórónuveirufaraldursins. Hann segir sænska liðið bera virðingu fyrir því íslenska fyrir toppslaginn í kvöld.

„Sem betur fer er samkeppnin um stöður mikil“

Jón Þór Hauksson, íslenski landsliðsþjálfari kvenna, er ánægður með samkeppnina í íslenska landsliðinu og er ekki hræddur að velja byrjunarliðið fyrir leikinn stóra annað kvöld.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.