Fótbolti

Segir Glódísi eina þá bestu í Svíþjóð og Söru meðal þeirra bestu í heimi

Sindri Sverrisson skrifar
Peter Gerhardsson er mættur til Íslands með bronsliðið sitt.
Peter Gerhardsson er mættur til Íslands með bronsliðið sitt. mynd/stöð 2

Peter Gerhardsson, sem stýrði Svíum til bronsverðlauna á HM í fyrra, býst við miklum slag á Laugardalsvelli á morgun þegar Ísland og Svíþjóð mætast í toppslag F-riðils í undankeppni EM kvenna í fótbolta.

„Ég sá Ísland á EM 2017 og tel að þetta sé mjög líkamlega sterkt lið, eins og við. Þetta verður erfiður leikur, mikið um baráttu úti á vellinum, og eins og öll lið er Ísland svo með mjög góða einstaklinga sem við þurfum að gæta sérstaklega,“ sagði Gerhardsson á blaðamannafundi í dag.

Svíar hafa unnið alla fjóra leiki sína í undankeppninni til þessa, eins og Ísland, nú síðast 8-0 sigur gegn Ungverjalandi síðasta fimmtudag. En Gerhardsson veit að leikurinn á morgun verður mun snúnari.

„Íslendingar eru líka sterkir í föstum leikatriðum, bæði vörn og sókn, svo að þó að við höfum skorað sex mörk þannig gegn Ungverjum getum við ekki ætlast til að við fáum mörk í gegnum þau,“ sagði Gerhardsson.

Aðspurður um íslensku leikmennina nefndi þjálfarinn sérstaklega Glódísi Perlu Viggósdóttur, sem leikur með Rosengård í Svíþjóð, og Evrópumeistarann Söru Björk Gunnarsdóttur.

„Viggósdóttir er einn besti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni. Hún byrjar sóknirnar með sendingum sínum. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig íslenska liðið verður en vitum að það er reynsla þarna og svo eru ungir leikmenn að koma inn, sem verður að koma í ljós hvort spila. Sara er einn besti leikmaður heims svo við verðum að hafa sérstaklega góðar gætur á henni,“ sagði Gerhardsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×