Fótbolti

Svaraði gagnrýninni fullum hálsi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Svíar krupu fyrir síðasta landsleik sinn og munu gera slíkt hið sama á Laugardalsvelli.
Svíar krupu fyrir síðasta landsleik sinn og munu gera slíkt hið sama á Laugardalsvelli. CARL SANDIN / BILDBYRÅN

Sænska kvennalandsliðið – sem mætir því íslenska á þriðjudaginn í undankeppni EM 2021 í knattspyrnu – fékk töluverða gagnrýni fyrir að krjúpa fyrir leik liðsins gegn Ungverjum í gærkvöld.

Sænska liðið ákvað, líkt og íslenska karlalandsliðið gerði fyrir leikinn gegn Englandi, að krjúpa fyrir leik og mótmæla þar með því kynþáttabundna óréttlæti sem á sér stað í heiminum. Svíar unnu leikinn 8-0 en að vissu leyti snerist umræðan eftir leik meira um að þær hafi kropið. Hinn 27 ára gamla Eriksson ákvað að nýta Twitter-síðu sína til að tjá sig um málið.

„Það var aldrei spurning hvort við myndum krjúpa eður ei. Þetta var það eina rétta í stöðunni. Við vitum hvað við stöndum fyrir og hvað við trúum á. Í gær krupum við til að sýna að við stöndum saman gegn kynþáttahatri og mismunun. Þetta snýst ekki um pólitík og var á engan hátt pólitísk aðgerð,“ segir Eriksson á Twitter-síðu sinni.

„Þetta snýst um mannkynið og þá staðreynd að við trúum því að við séum öll jöfn. Húðlitur, kynþáttur, kynhneigð, ekkert af þessu á að skipta máli. Hatur á ekki heima í heimi okkar og

við erum enn vissari um að við höfum gert það sem er rétt eftir að hafa fengið gagnrýni. Getið þið hvað … við munum gera þetta aftur. Við erum ekki vandamálið, fólkið sem er á móti því sem við gerðum er það hins vegar,“ segir einnig í tísti Eriksson.

Sænska landsliðið mætir Íslandi á Laugardalsvelli næstkomandi þriðjudag, 22. september. Bæði Ísland og Svíþjóð eru með fullt hús stiga og því ljóst að leikurinn mun skipta sköpum í hvort landið kemst beint á EM sem fram fer næsta sumar í Englandi.

Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður í opinni dagskrá Stöðvar 2 Sport.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.