Innlent

Telur að rífa þurfi Fossvogsskóla vegna myglu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Farið var í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæði Fossvogsskóla vegna myglu- og rakaskemmda.
Farið var í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæði Fossvogsskóla vegna myglu- og rakaskemmda. Vísir/Egill

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að rífa þurfi skólabyggingu Fossvogsskóla vegna myglu.

Móðir stúlku í skólanum segir dóttur sína enn finna fyrir einkennum myglu, þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir við húsnæðið sem lauk í sumar. Framkvæmdirnar áttu að tryggja heilnæm loftgæði.

Fjallað er um málið á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Fyrst var farið í framkvæmdir á skólanum í fyrra og var þá meðal annars gert við þak á Vesturlandi, einni byggingu skólans, sem var illa farið vegna raka og myglu.

Í vor stigu foreldrar barna fram og lýstu því að börn þeirra fyndu enn fyrir einkennum myglu. Aftur var farið í framkvæmdir í sumar og er nú beðið eftir lokaúttektarskýrslu verkfræðistofunnar Verkís vegna þeirra framkvæmda.

„Í Kópavogi var Kársnesskóli rifinn vegna myglu og rakaskemmda. Ég tel að það þurfi að gera hið sama í tilfelli Fossvogsskóla,“ segir Valgerður í samtali við Fréttablaðið og leggur áherslu á að fá að vita hvernig mygla fannst. Það sé það sem skipti máli.

„Ef þau sýni sem voru tekin voru ekki send til greiningar til Náttúrufræðistofnunar Íslands, líkt og gert var fyrst þegar myglan fannst, þá finnst mér það verulega ámælisvert.“

Þá bendir Valgerður á að tveimur dögum eftir að skólastarf hófs í haust hafi fundist mygla inni á salerni þrátt fyrir allar endurbæturnar.

Í Fréttablaðinu er einnig rætt við Jónínu Sigurðardóttur en dóttir hennar er nemandi við Fossvogsskóla. Að sögn Jónínu fann dóttir hennar fyrir miklum einkennum myglu nú í haust.

„Ég hef miklar áhyggjur af heilsu hennar til framtíðar,“ segir Jónína. Þá hafi gengið illa að fá svör frá skólanum; enginn vilji svara því hvað var gert eða neitt í þá veru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×