Innlent

Grímuskyldu komið á í Háskólanum í Reykjavík

Sylvía Hall skrifar
Starfsmenn bóksölu stúdenta á Háskólatorgi með grímur við störf. Háskóli Íslands hefur sent orðsendingu þar sem nemendur og starfsfólk er hvatt til þess að nota grímur.
Starfsmenn bóksölu stúdenta á Háskólatorgi með grímur við störf. Háskóli Íslands hefur sent orðsendingu þar sem nemendur og starfsfólk er hvatt til þess að nota grímur. Vísir/Vilhelm

Grímuskylda verður innan veggja Háskólans í Reykjavík frá og með morgundeginum. Nemendur og starfsfólk þurfa því að bera grímur í skólastofum, les- og vinnurýmum og öðrum sameiginlegum rýmum.

Þetta kemur fram í tölvupósti til nemenda sem sendur var út í dag. Þar kemur fram að skólinn hafi ákveðið að grípa til þessara ráðstafana í ljósi fjölgunar smita í samfélaginu undanfarna daga. Greint var frá því í síðustu viku að í það minnsta sex nemendur skólans hefðu smitast af veirunni.

Umfangsmikil skimun hefur farið fram undanfarna daga og hefur háskólanemum á höfuðborgarsvæðinu verið boðið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Í Háskóla Íslands greindust einnig smit á meðal starfsfólks og nemenda í síðustu viku. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi orðsendingu til nemenda og starfsfólks í dag þar sem núgildandi sóttvarnaráðstafanir eru ítrekaðar. Þá hvetur hann nemendur og starfsfólk til þess að nota hlífðargrímur í byggingum skólans.

„Ég vil hvetja alla, nemendur, kennara og annað starfsfólk, til að nota hlífðargrímur í byggingum skólans, sérstaklega þegar ekki er hægt að koma við 1 metra fjarlægðarmörkum og þegar loftgæði eru lítil. Grímum verður dreift í byggingum skólans í byrjun vikunnar eða eins fljótt og unnt er,“ skrifar Jón Atli.

Þá hvetur hann kennara til þess að auka rafræna kennslu ef mögulegt er. Áhersla verði þó enn lögð á það að nýnemar eigi kost á staðnámi.


Tengdar fréttir

Smit greindist í Listaháskólanum

Kórónuveirusmit er komið upp í einu sóttvarnahólfa Listaháskóla Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu frá Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×