Innlent

Líkir barna­mála­ráð­herra við í­þrótta­mann sem fallið hefur á lyfja­prófi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður segir Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hafa staðið sig eins og íþróttamaður sem féll á lyfjaprófi í máli egypsku fjölskyldunnar.
Þorbjörg Sigríður segir Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hafa staðið sig eins og íþróttamaður sem féll á lyfjaprófi í máli egypsku fjölskyldunnar. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Viðreisnar gagnrýndi félags- og barnamálaráðherra harðlega fyrir að hafa ekki kynnt sér mál egypsku fjölskyldunnar sem vísa átti úr landi á miðvikudag en er nú í felum. Að hennar mati hafi hann staðið sig í þessu máli eins og íþróttamaður sem hefði fallið á lyfjaprófi. 

Þorbjörg Sigríður Guðlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar var mjög gagnrýnin á Ásmund Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra í Sprengisandi í morgun. Hún segir hann sem sérstakan barnamálaráðherra hafa átt að kynna sér málið sérstaklega.

„Við erum með ráðherra sem valdi sér þann titil sjálfur að kalla sig barnamálaráðherra og hans hlutverk innan ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera annað heldur en annarra ráðherra í því samhengi,“ sagði Þorbjörg.

„Ég hef séð hann svara með þeim hætti í fjölmiðlum að hann treysti niðurstöðunum, hafi ekki lesið málið og allt þetta. Mér finnst þetta nánast vera eins og íþróttamaður sem fellur á lyfjaprófi,“ bætti hún við.

Helga Vala Helgadóttir segir nauðsynlegt að meta mál fjölskyldna út frá hagsmunum barnanna. Vísir/Vilhelm

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar tók heils hugar undir þetta. Þá sagði hún að meta ætti út frá hagsmunum barnanna, ekki hagsmunum foreldra.

„Það sem ég sakna hjá íslenskum stjórnvöldum er að þau horfi fyrst og fremst, í samræmi við það sem stendur í stjórnarskrá, í samræmi við það sem stendur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu og barnalögum, sem við erum öll með lögfest hér á landi að það sé fyrst og fremst horft á aðstæður barna þegar mál eru skoðuð,“ sagði Helga.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra svaraði því og sagði alltaf litið til hagsmuna barnanna. Það hafi líka verið gert í þessu máli.

„Já, við lítum alltaf til hagsmuna barna og það hafa verið settar sérstakar reglur til dæmis hjá kærunefndinni um hvernig skoða eigi málefni barna út frá börnunum sjálfum.“

Var það gert í þessu tilviki?

„Já, það var gert í þessu máli,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Áslaugu, Þorbjörgu og Helgu Völu í heild sinni í spilaranum hér að neðan. 


Tengdar fréttir

Segir að börnunum verði hugsan­lega rænt af yfir­völdum við komuna til Egypta­lands

Fyrrverandi formaður félags múlima á Íslandi sem bjó um árabil í Eygyptalandi segir að egypsku börnunum sem vísa á úr landi verði hugsanlega rænt af yfirvöldum við komuna til landsins og fjölskyldufaðirinn pyntaður og fangelsaður. Hann tekur nú saman sviðsmynd sem hann ætlar að senda þar til bærum yfirvöldum á Íslandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.