Innlent

Fjölskyldan er enn í felum: „Næstu skref eru að undirbúa nýja framkvæmd“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Flytja átti fjölskylduna úr landi í morgun.
Flytja átti fjölskylduna úr landi í morgun. Vísir

Formleg leit er ekki hafin að sex manna egypskri fjölskyldu sem skilaði sér ekki þegar flytja átti hana úr landi í morgun. Yfirvöld vita ekki hvar fjölskyldan er niður komin.

Fjölskyldan var ekki á dvalarstað sínum þegar fulltrúar stoðdeildar ríkislögreglustjóra mættu þangað í morgun til að fylgja þeim úr landi. Til stóð að þau myndu fljúga héðan til Amsterdam og þaðan til Kaíró í Egyptalandi en eins og fram hefur komið óttast fjölskyldan mjög að fara til heimalandsins þar sem þau segjast sæta ofsóknum.

„Fjölskyldan er enn í felum og næstu skref hjá okkur er að undirbúa nýja framkvæmd,“ segir Guðbrandur Guðbrandsson, deildarstjóri stoðdeildarinnar.

Engin formleg leit sé hafin.

„Við förum bara rólega, stígum varlega til jarðar og höfum meðalhófsregluna í hávegum og reynum að gera þetta í samvinnu við alla aðila en hver næstu skref eru erum við bara að leggja fyrir okkur núna,“ segir Guðbrandur.

Barnaverndarfulltrúi ásamt lögreglumönnum áttu að fylgja fólkinu til Egyptalands í morgun.„Við vorum í sambandi fyrir síðustu framkvæmd við barnavernd hælisleitenda í Hafnarfirði og það mun ekkert breytast,“ segir Guðbrandur.

Fjölskyldan, sem hefur verið á landinu í rúm tvö ár, fékk lokaniðurstöðu hjá kærunefnd útlendingamála 18. nóvember 2019. Þá hófst 30 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar. Í millitíðinni óskaði fjölskyldan eftir því að kærunefndin frestaði réttaráhrifum úrskurðarins en þeirri beiðni var hafnað 8. janúar. 

Útlendingastofnun vísaði málinu til stoðdeildar ríkislögreglustjóra til framkvæmdar þann 13. janúar.

Þá kom í ljós að tvö vegabréf rynnu út þann 28 janúar. Það tók stoðdeildina svo sex mánuði að fá ný vegabréf frá yfirvöldum í Egyptalandi.

„Við erum að fara til fjarlægs lands, við þurfum að millilenda, við þurfum að fá aðstoð þar sem við erum með börn sem viljum að hafi það sem allra best í svona neikvæðri framkvæmd,“ segir Guðbrandur.

Hann segir að þegar fjölskyldan verður flutt út landi verði sami háttur hafður á. Fulltrúar stoðdeildar séu sérfræðingar og reyni að vinna í samvinnu við alla aðila.

„Við reynum eftir fremsta megni að koma þessu frá okkur þannig að öllum í slíkum neikvæðum ákvörðunum valdi ekki skaða, og þá sérstaklega börnunum,“ segir Guðbrandur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×