Innlent

Kartöflukofarnir þróast upp í afkastamikil verksmiðjubú

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bjarnveig Jónsdóttir og Ármann Ólafsson, kartöflubændur í Vesturholtum í Þykkvabæ. Fyrir aftan sjást gamli og nýi tíminn.
Bjarnveig Jónsdóttir og Ármann Ólafsson, kartöflubændur í Vesturholtum í Þykkvabæ. Fyrir aftan sjást gamli og nýi tíminn. Stöð 2/Einar Árnason.

Kartöflubændum í Þykkvabæ hefur á síðustu áratugum fækkað úr fjörutíu niður í tíu. Samhliða hefur kartöfluræktin þróast úr einföldum einyrkjabúskap í verksmiðjubú með tugmilljóna króna fjárfestingum í tækjum og húsnæði, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2.

Rétt eins og í öðrum búgreinum hefur þróunin í kartöfluræktinni verið sú að hver og einn bóndi framleiðir núna margfalt meira en áður. Fyrir hálfri öld voru tveir hektarar algeng stærð af kartöflugörðum hjá bónda. Núna eru það tuttugu hektarar.

Séð yfir kartöflubyggingarnar í Vesturholtum í Þykkvabæ.Stöð 2/Einar Árnason.

Á bænum Vesturholtum eru hjónin Ármann Ólafsson og Bjarnveig Jónsdóttir í samvinnu við tvo syni sína að byggja 560 fermetra hús með tilheyrandi hamarshöggum sem dynja þessa dagana í kartöfluþorpinu.

„Það stendur til að koma hér upp kartöflugeymslu og vinnsluhúsi,“ segir Ármann.

Já, þetta eru ekki lengur einfaldir kartöflukofar heldur sjást núna hjá hverjum bónda nánast verksmiðjubyggingar með miklum vélasamstæðum, eins og hjónin í Hákoti, þau Halldóra Hafsteinsdóttir og Markús Ársælsson, sýna okkur.

Kartöflubændurnir Halldóra og Markús í Hákoti sýna tækjakostinn.Stöð 2/Einar Árnason.

Kartöfluþvottavélar, þurrkarar, flokkunarvélar og pökkunarvélar undir þaki og dráttarvélar og kartöfluupptökuvélar úti á akri eru dæmi um miklar fjárfestingar í tækjum og húsnæði, sem hlaupa á tugum milljóna króna.

Bjarnveig, eiginkona Ármanns, segir þau hjónin standa saman í þessu. Spurð hvort arðurinn af kartöfluræktinni standi undir fjárfestingunni svarar hún:

„Ætli það komi ekki í ljós hvernig þetta fer. Maður verður að taka áhættu,“ segir Bjarnveig.

Kartöflustöðin rís í Vesturholtum. Stöð 2/Einar Árnason.

-Þessi húsbygging hérna, hún hlýtur að segja manni það að þið hafið trú á framtíð kartöfluræktar?

„Það þýðir ekkert annað. Það þýðir ekkert að gefast upp,“ svarar Ármann.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×