Innlent

Boðar hertar að­gerðir á vín­veitinga­stöðum borgarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fjölgun nýsmitaðra af kórónuveirunni undanfarna daga kalli á staðbundnar og markvissar aðgerðir, einkum á vínveitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu. Heimsóknir á slíka staði eigi stóran þátt í þeirri bylgju sem nú virðist vera að ganga yfir. Eitt af því sem er til skoðunar er að loka öllum vínveitingastöðum um næstu helgi. Það væri þó aðgerð í harðara lagi.

Þetta kom fram í máli sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis. Þórólfur sagðist ekki tilbúinn til að segja nákvæmlega til um það nú hvaða aðgerðir hann hyggist leggja til við heilbrigðisráðherra. Hann muni þó leggja tillögurnar fram í dag eða á morgun. Þórólfur boðar ekki tillögur um almennt hertar aðgerðir fyrir landið allt á þessari stundu.

Þá sagði Þórólfur að skerpa þurfi verulega á þeim aðgerðum sem eru í gangi og þá einkum á fjölförnum stöðum eins og vinnustöðum og skólum. Hann muni gera tillögu um það í minnisblaðinu.

Síðastliðna þrjá sólarhringa hafa 38 greinst með veiruna innanlands. Þar af voru einungis ellefu í sóttkví við greiningu. Allir nema einn voru á höfuðborgarsvæðinu og meðalaldur smitaðra er 39 ár. Um þriðjungur tengist vínveitingastað, eða jafnvel vínveitingastöðum, í miðbænum. Aðrir tengjast öðrum stöðum, þar á meðal Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Ekki eru þó óyggjandi merki um að smit hafi orðið innan stofnananna, að sögn Þórólfs.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×