Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, verður ekki á hliðarlínunni þegar Ísland tekur á móti Lettlandi í undankeppni EM í kvöld.
Jón Þór tekur út leikbann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í fyrri leiknum gegn Lettlandi, 8. október á síðasta ári. Ísland vann leikinn með sex mörkum gegn engu.
Aðstoðarþjálfarinn Ian Jeffs stýrir íslenska liðinu í kvöld á meðan Jón Þór fylgist með úr stúkunni á Laugardalsvelli. Þetta er í fyrsta sinn sem þjálfari af erlendu bergi brotinn þjálfar kvennalandsliðið í leik.
Jeffs til halds og trausts verða tveir fyrrverandi markverðir; Ólafur Pétursson og Þórður Þórðarson. Ólafur hefur verið markvarðaþjálfari landsliðsins undanfarin ár. Þórður er þjálfari U-19 ára landsliðs kvenna og er nú kominn í þjálfarateymi A-landsliðsins. Það verður því einn Skagamaður á hliðarlínunni í kvöld.

„Dagskráin er hefðbundin hjá mér á leikdegi þangað til að klukkutími er til leiks en þá má ég engin afskipti hafa af liðinu. Það í sjálfu sér riðlar ekki okkar undirbúningi fyrir leikinn. Þetta snýst allt um að leikmennirnir hafi þá umgjörð og aðbúnað sem þeir þurfa, og við erum með mjög öflugt teymi þjálfara og starfsfólks í kringum liðið sem gerir það að verkum að þetta verður allt í toppstandi á morgun,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi um leikinn og undirbúninginn óhefðbundna.
„Þetta er auðvitað verst fyrir mig, og verður erfitt og krefjandi fyrir mig persónulega. En það mun ekki bitna á liðinu eða frammistöðu þess í leiknum. Við erum auðvitað búin að undirbúa liðið, planið er klárt, og ég má engin skilaboð senda eða hafa afskipti af liðinu niðri á velli. Við erum vanir að vinna saman og vitum hvernig við hugsum leikina,“ sagði Jón Þór.
Ísland er með níu stig í 2. sæti F-riðils undankeppninnar. Íslendingar mæta Svíum á þriðjudaginn í síðasta heimaleik sínum í undankeppninni. Síðustu þrír leikir eru á útivelli. Efsta liðið í riðlinum fer beint á EM sem og þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna. Hin liðin fara í umspil um sæti á EM.
Leikur Íslands og Lettlands hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst hálftíma fyrir leik.