Innlent

Vindhviður gætu náð 35 metrum á sekúndu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi á nokkrum stöðum á landinu á morgun.
Gular viðvaranir eru í gildi á nokkrum stöðum á landinu á morgun. Veðurstofa Íslands

Veðurstofan varar við sunnan hvassviðri eða stormi á morgun og hefur gefið út gular viðvaranir á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum og Miðhálendinu.

Sérstaklega er varað við vindstrengjum við fjöll sem gætu náð allt að 35 metrum á sekúndu. Þannig er ábending til vegfarenda á vef Vegagerðarinnar þar sem sagt er frá því að á norðanverðu Snæfellsnesi verði vindur byljóttur og hviður geti náð 35 metrum á sekúndu frá klukkan 11 til 20.

Á vef Veðurstofunnar kemur einmitt fram að gul viðvörun taki gildi á Breiðafirði klukkan 11 og gildir hún til klukkan 20 annað kvöld. Er varað við sunnan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 m/s, einkum á Snæfellsnesi. Aðstæður verða varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Á Vestfjörðum er gul viðvörun í gildi frá 12-21:

„Sunnan hvassviðri eða stormur 15-23 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 m/s, sérstaklega á heiðum og við Ísafjarðardjúp. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind,“ segir á vef Veðurstofunnar og við Faxaflóa, þar sem gul viðvörun gildir frá 15-20, er sérstaklega varað við aðstæðum sem geta myndast við Hafnarfjall:

„Sunnan hvassviðri 13-20 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 m/s, sérstaklega við Hafnarfjall. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Veðurstofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×