Fótbolti

Eiður Smári fær afmæliskveðjur úr öllum áttum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Frank Lampard með Englandsbikarinn eftir að Chelsea liðið vann hann annað árið í röð vorið 2006.
Eiður Smári Guðjohnsen og Frank Lampard með Englandsbikarinn eftir að Chelsea liðið vann hann annað árið í röð vorið 2006. Getty/Darren Walsh

Eiður Smári Guðjohnsen heldur upp á 42 ára afmælið sitt í dag og hann hefur fengið fullt af kveðjum á samfélagsmiðlum.

Eiður Smári Guðjohnsen er einn allra farsælasti knattspyrnumaður Íslendinga og sá eini sem hefur unnið ensku úrvalsdeildina og eini karlmaðurinn sem hefur unnið Meistaradeild Evrópu.

Eiður Smári er nú upptekinn þjálfari, bæði hjá FH í Pepsi Max deild karla og hjá íslenska 21 árs landsliðinu.

Eiður Smári átti mjög flottan leikmannaferil og vann titla með bæði Chelsea á Englandi og Barcelona á Spáni þar sem hann átti sín bestu ár á ferlinum.

Það hefur líka verið skemmtilegt að fylgjast með kveðjunum hrannast inn á Twitter í dag en margir hafa vakið athygli á afmælisdegi íslensku knattspyrnugoðsagnarinnar.

Þjóðadeildin hélt upp á afmæli Eiðs Smára með síðasta markinu hans í mótsleik sem kom í 3-0 sigri á Kasakstan 28. mars 2015. Það var 25. landsliðsmarkið hans en Eiður Smári átti eftir að bæta við einu marki í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum.

Sporting Life rifjaði það upp þegar Eiður Smári spilaði frysta landsleikinn sinn árið 1996 með því að koma inn á sem varamaður fyrir föður sinn Arnór Guðjohnsen.

MundialMag rifjaði upp geggjað mark sem Eiður Smári skoraði fyrir Chelsea á móti Leeds þar sem hann skoraði með hjólhestaspyrnu.

Stuðningsmannaklúbbar Chelsea hafa líka vakið athygli á frábærum ferli Eiðs með Chelsea þar sem hann var með 78 mörk og 32 stoðsendingar í 262 leikjum og vann ensku úrvalsdeildina tvisvar og enska deildabikarinn einu sinni.

Bwin birti mynd af Eið Smára fagna með Meistaradeildarbikarinn en tímabilið 2008-09 þá vann hann þrennuna með Barcelona liðinu við hlið Lionel Messi, Xavi og Andrés Iniesta.

Goal setti inn tvennuna hans Eiðs Smára í leik á móti RCD Mallorca í spænsku deildinni í nóvember 2006.

Hér fyrir neðan má sjá eitthvað af þessum fjölmörgum kveðjum sem koma úr öllum áttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×