Íslenski boltinn

„Ekki bjart yfir markmannsstöðunni hjá Breiðabliki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Ari Einarsson hefur verið mistækur í sumar.
Anton Ari Einarsson hefur verið mistækur í sumar. vísir/bára

Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, gerði sig sekan um slæm mistök í þriðja og síðasta marki FH í leik liðanna í gær. FH-ingar unnu 3-1 sigur.

Í uppbótartíma gaf Anton Ari boltann beint á Atla Guðnason sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði með skoti í stöng og inn.

„Ég hef ekki séð Blika græða nokkurn skapaðan hlut á þessu, að láta Anton Ara koma framarlega og reyna stöðugt að spila. Þetta kostar þá endalaust vesen,“ sagði Atli Viðar Björnsson í Pepsi Max tilþrifunum í gær.

Hann setti líka spurningarmerki við Anton Ara í fyrsta marki FH sem Steven Lennon skoraði.

„Er maður ósanngjarn ef maður spyr hvort hann eigi ekki bara að verja þetta? Þetta er nálægt honum og ef hann væri að verja svona og koma í veg fyrir mörk ættirðu kannski auðveldara að fyrirgefa honum þegar hann gerir mistök eins og í markinu hans Atla. Hann er í miklum vandræðum og það er ekki bjart yfir markmannsstöðunni hjá Breiðabliki,“ sagði Atli Viðar.

Breiðablik er í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar með 23 stig og hefur fengið á sig 21 mark. Aðeins fjögur lið hafa fengið á sig fleiri mörk en Blikar í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×