Íslenski boltinn

Viktor Bjarki: Er búinn að missa röddina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Bjarki Arnarsson ásamt Brynjari Birni Gunnarssyni.
Viktor Bjarki Arnarsson ásamt Brynjari Birni Gunnarssyni. vísir/bára

Viktor Bjarki Arnarsson stýrði HK gegn ÍA í fjarveru Brynjars Björns Gunnarssonar sem tók út leikbann. Hann var kátur, en rámur, eftir leikinn sem HK-ingar unnu, 3-2.

„Ég er mjög sáttur að hafa tekið þrjú stig. Ég er virkilega ánægður með þetta. Mér fannst óþarfi að hleypa þeim inn í leikinn í fyrri hálfleik. Mér fannst við mun hættulegri og fannst við geta skorað fleiri mörk,“ sagði Viktor í samtali við Vísi í leikslok.

HK átti í miklum vandræðum með að verjast föstum leikatriðum ÍA í fyrri hálfleik og komu mörk Skagamanna bæði úr slíkum stöðum. En HK-ingar vörðust betur í seinni hálfleik og kláruðu leikinn.

„Við fórum aðeins yfir það í hálfleik, hvað við ætluðum að gera og strákarnir gerðu það vel. Þeir voru ekkert hættulegir í þessum föstu leikatriðum í seinni hálfleik,“ sagði Viktor.

Öll mörk HK voru í laglegri kantinum og komu eftir gott spil og góða takta. „Það var frábært. Við höfum lagt upp með að halda boltanum betur. Mér fannst það ganga vel og við geta skorað fleiri mörk en þessi þrjú.“

HK hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð á heimavelli. Kópavogsbúar eru hvergi nærri hættir og stefna ofar.

„Það er þessi þreytta gamla klisja, við tökum einn leik í einu,“ sagði Viktor. „Við viljum auðvitað komast hærra í töflunni en það er bara einn leikur í einu í fótbolta.“

Viktor fagnar því að fá Brynjar aftur á hliðarlínuna í næsta leik HK sem er gegn Víkingi eftir viku.

„Það er alltaf þörf fyrir hann. Ég er búinn að missa röddina þannig að það hefði verið fínt að hafa hann til að öskra líka,“ sagði Viktor að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×